Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Blaðsíða 102
102
kapítalísk hugmyndafræði hefði haft áhrif á guðsmynd mótmælenda og
stuðlað að því að mótmælendaguðfræði liti á trú sem einkamál sem ekki
varðaði hið félagslega og pólitíska svið samfélagsins. Líkt og hin kapítal-
íska hugmyndafræði sem einblíndi á einstaklinga og samband þeirra í mill-
um, legði mótmælendaguðfræði æ ríkari áherslu á þinn Guð og þinn per-
sónulega frelsara. Þessi einstaklingsmiðaði guðsskilningur, benti Sölle á,
smættar kristna trú og vísar henni til sætis á ópólitísku einkasviði.10
Svipaða túlkun má finna hjá fleiri femínískum guðfræðingum undir lok
síðustu aldar. Einn þeirra og sá sem þessi grein beinir sérstökum sjónum
að er Sallie McFague. Fyrir tuttugu árum benti hún á að færa þyrfti áhersl-
una frá einstaklingnum og persónulegri frelsun hans í kristinni trúartúlkun
yfir á náttúruna sem sköpun Guðs og hvernig sköpunin öll þyrfti á frelsun
að halda.11 McFague hafnar hinni sterku áherslu mótmælenda á persónu-
legan Guð sem og flestum klassískum guðshugmyndum og lýsir því yfir
að slíkar fornaldar- og miðaldahugmyndir um guðdóminn séu meira og
minna úr sé gengnar. Vita vonlaust sé að tala um guðdóminn sem hátt
upp hafinn, alvitran, allsráðandi persónulegan alvald. Slík guðsmynd sé
úrelt því hún komi ekki heim og saman við þekkingu, reynslu og lífs-
skoðanir fólks í samtímanum.12 Því verði að skilja Guð á annan hátt. Það
hugmyndalíkan sem McFague býður fram er að guðdómurinn sé hugsaður
sem sjálfur lífskrafturinn sem knýi allt líf áfram. Hugsi maður guðdóm-
inn þannig, auðveldi það manni að skilja jörðina og náttúruna sem líkama
Guðs. Í bókinni The Body of God: An Ecological Theology frá 1993 leggur
McFague áherslu á mikilvægi framlags allra fræðigreina, þar á meðal guð-
fræðinnar, til þess að finna leiðir til þess að bjarga náttúrunni og lífríkinu
öllu frá yfirvofandi eyðileggingu.13
10 Dorothee Sölle, Thinking about God. An Introduction to Theology, London: SCM,
1990. Hér mætti opna á mjög mikilvæga umræðu um þýðingu trúarlegra skoðana
og röksemda í nútíma vesturlensku samfélagi. Það er þó það víðfeðm umræða að
henni verður sleppt hér.
11 Sallie McFague, The Body of God. An Ecological Theology, Minneapolis, Minn: For-
tress Press, 1993. Það má kannski orða það svo að áherslan þurfi að flytjast frá
einstaklingnum yfir á mannkyn allt.
12 Segja má að Sallie McFague leggi grunninn að umhverfisguðfræði sinni í tveimur
bókum, Metaphorical Theology: Models of God in Religious Language, Philadelphia:
Fortress Press, 1982 og Models of God: Theology for an Ecological, Nuclear Age,
London: SCM, 1987. Í þessum tveimur bókum hefst gagnrýni hennar á kristna
guðsmynd.
13 Sallie McFague, The Body of God, bls. 1–26.
SólveiG AnnA BóASdóttiR