Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Blaðsíða 50
50
örlagahljóm og refsidóma,
land og stund í lifandi myndum
ljóði vígðum – geymir í sjóði.4
Þarna er Matthías í félagi með öðrum þjóðskáldum sem ort hafa um
tunguna með einum eða öðrum hætti; Einar Benediktsson skildi á sínum
tíma „að orð er á Íslandi til / um allt, sem er hugsað á jörðu“ og Snorri
Hjartarson sagði í sonnettunni sinni frægu að „land, þjóð og tunga [væri]
þrenning sönn og ein“ og hefur margur gripið til þessara orða til að undir-
strika einingu þjóðar og tungu.5 Ætlunin er að skoða þessa einingu aðeins
nánar, bæði í ljósi þeirrar þjóðernisumræðu sem við þekkjum fyrr og nú og
einnig í tengslum við málstefnu Evrópusambandsins. Þannig verður stikl-
að á stóru í þróuninni frá því móðurmálin risu í Evrópu til samtímans með
orð Einars Benediktssonar í kvæðinu „Aldamót“ að leiðarljósi:
að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja,
án fræðslu þess liðna sést ei, hvað er nýtt.
Vort land það á eldforna lifandi tungu,
hér lifi það gamla’ í þeim ungu!6
Áður en litið verður beint til málstefnu ESB og hugsanlegra áhrifa hennar
á íslenskt mál þarf að kanna lítillega hvernig þjóðtungur og þjóðerni flétt-
ast saman á Vesturlöndum, því að sú hugmyndafræði sem fram kemur í
þessum kvæðabrotum er að sönnu alþjóðleg og hluti af því sem telja má
„algilt“ í þjóðernisstefnunni, fyrirbæri sem kalla mætti sambærilega sérstöðu.
Þetta fyrirbæri, sambærileg sérstaða, tekur á sig fjölmargar birtingarmynd-
ir, en sú algildasta er vitaskuld þjóðfáninn, sem hefur nákvæmlega sama
hlutverk og stöðu alls staðar í heimi þjóðríkjanna, en um leið eru þjóðfán-
arnir mismunandi útlits. Þjóðfánar eru þannig dæmi um mismunandi tákn
sem tákna það sama. Sama gildir um þjóðtungurnar, þjóðarbókmenntirnar
og þjóðmenninguna sem sprottið hefur upp víða á undanförnum öldum,
4 Matthías Jochumsson, „Til Vestur-Íslendinga“, Ljóðmæli, Reykjavík: Magnús
Matth íasson, 1936, bls. 88.
5 Einar Benediktsson, „Móðir mín“, Vogar, Reykjavík: Sigurður Kristjánsson, 1921,
bls. 2 og Snorri Hjartarson, „Marz 1949“, Á Gnitaheiði, Reykjavík: Heimskringla,
1952, bls. 16–17. Kvæði Snorra, sem vísaði vitanlega til atburða í lok mars 1949,
fékk síðar titilinn „Land, þjóð og tunga“.
6 Einar Benediktsson, Hafblik, Reykjavík: Sigurður Kristjánsson, 1906, bls. 12–13.
GAUTi KRiSTMANNSSON