Skírnir - 01.01.1953, Blaðsíða 30
26
Steingrímur J. Þorsteinsson
Skirnir
Skáldskapur átti því að vera öðrum hugsanavaki — eins
og hann átti sjálfur að vera hugsunum þrunginn. Það var
ekki sízt hin vitræna hugsun í kvæðum Stephans, er olli því
áliti margra, sem séra Matthías hefur orðað manna bezt —
en hann taldi Stephan að vísu „á sinn hátt mikilmenni111
og „jötunmenni að andans yfirburðum“,1 2 en jafnframt væri
hann „höfuðskáld, en hjartaskáld ekki“.3 — En
djúpvarmur er undirylur
ástar, sem að fátt um þylur.4
Það er satt, að Stephan stafaði sjaldan stórt að tilfinningum
sínum og orti fátt um eigin kenndir og hvatir; persónuleg-
ustu kvæðin eru um afstöðuna til skáldskapar, vinnu og til-
veru. Því hefur iðulega verið haldið fram, að hann hafi jafn-
vel aldrei ort ástakvæði til konu. Það er raunar ekki rétt.
Ungur orti hann ástaljóð til Helgu heitmeyjar sinnar, sem
eru meira að segja prentuð, flest fyrir hart nær aldarfjórð-
ungi, í vesturíslenzku tímariti.5 En það breytir að visu lítið
endanlegri heildarmynd okkar af Stephani. — Hófsemi hans
í tjáningu tilfinninga sinna stafar þó engan veginn af ástríðu-
leysi, heldur af valdi vilja og mannvits yfir ástríðunum. Eitt
aðaleinkenni hans er einmitt þetta jafnvægi vitsmuna og til-
finninga — tvinning skynsemi og skáldgáfu — samstilling
hugsanafestu og hugarflugs.
Því að Stephani var í ríkum mæli gefin sú skáldlega hug-
kvæmni og skyggni, sem að ytri kennimerkjum kemur oft
skýrast fram í meðferð mynda og líkinga. En þar getur hann
í einni sjónhending spennt um heila heima eða fellt fjar-
skyldustu skynsvið hvert að öðru. Að þessari skáldsýn og
myndvísi er hann helzt sambærilegur við Egil Skallagrimsson
og Einar Benediktsson.
1) Bréf Matthiasar Jochumssonar, Ak. 1935, 480 (1917).
2) ísafold 15. október 1913.
3) Bréf Matthíasar, 435 (1910), sbr. 479—480 (1917).
4) Heimkoman, A. V, 276; tJrv., 28.
5) „Ásta visur til Helgu“ (1870—77), Saga VI, Winnipeg 1930—31,
141—147; sbr. einnig Mansöng (1896), A. II, 58.