Skírnir - 01.01.1953, Blaðsíða 63
Skímir
Stephan G. Stephansson
59
með hlíð og hala á bæði lönd
og bæjatúnin gróin!
Og við skulum leiðast hönd í hönd
um hérað, út í sjóinn.
En vænst þykir honum um vestrænu óbyggðina, af því að
þar eiga framtíðarvonimar og frelsið sitt vígi. Svo segir í
kvæðinu „Hirðinginn“:
Þú öræfanna andi,
sem átt hér riki og völd,
ei þekkist þræll af bandi
í þinu frjálsa landi
né greifi af gylltum skjöld.
Um söguljóð Stephans verð eg fáorður. Sum beztu þeirra
eru alkunn. Hver þekkir ekki „Illugadrápu“, „Hergilseyjar-
bóndann“, „Grím frá Ilrafnistu", „Jón hrak“, „Sigurð trölla“
o. fl.? I stað þess að tala um einstök kvæði Stephans af þessu
tagi, sem flestir eru handgengnir, vil eg henda á sérstæða með-
ferð skáldsins á efni þeirra. Fyrst og fremst gæðir hann sögu-
ljóðahetjur sínar mannkostum, svo sem hreysti, trúmennsku,
hugrekki og andlegu sjálfstæði. Enn fremur lagði skáldið
sinn eigin skilning í sögumar, sem hann orti út af, gaf þeim
oft allt annan endi. Og síðast, en ekki sízt, heimfærði hann
söguefnið til síns eigin tíma og upp á framtíðina.
Kvæðið „Mjöll dóttir Snæs konungs“ er ágætt dæmi þessu
til skýringar. Skáldið byrjar á að lýsa kóngsdóttur, æsku
hennar og uppvexti. Hún er fríð sýnum, en föl á brún, hjart-
eyg og svipheið, „eins og sól og vetrarhjarn“, sögufróð, ljóð-
elsk og vissi deili á rúnum. Þegar tímar liðu, bar gest að garði,
sendisvein Sturlaugs konungs sunnan úr löndum. Hann bað
Mjallar kóngsdóttur herra sínum til handa. Með fagurmælgi
sinni og slægð tókst honum að fá Mjöll ungu til að leynast
á brott með sér, þó að vitur væri og áður heimakær, öllum
færari um að vera ráðgjafi föður sins og leysa ríkan konung
úr vanda. En hún var svikin í tryggðum og afdrif hennar
þau, að þrælar brenndu hana til ösku.
En skáldinu finnst, að sögunni hafi lyktað á aðra og hetri