Skírnir - 01.01.1953, Blaðsíða 245
Skírnir
Ritfregnir
241
vinir hans hefði ór skiptum meira hlut þar en þeir at hnigu til sona Er-
lends,“ — voru aðeins vinir lítt tiginnar ættar.
Björn Sigfússon.
Símon Jóh. Ágústsson: List og fegurð. Hlaðbúð. Reykjavík 1953.
Það eðli virðist hafa fylgt manninum aftan úr grárri forneskju að
kunna nokkur skil fegurðar og ljótleika. Og ekki eru börnin ýkjagömul,
er þau kveða upp dóma um þau efni. Þessi sundurgreining stendur
óneitanlega djúpum rótum í öllu mannlífi.
Rók dr. Simonar fjallar um viðfangsefni, sem varða list og fegurð, eins
og heiti hennar ber með sér. Uppistaðan í henni eru erindi, sem höfundur
flutti við Háskóla Islands, en endursamdi síðan og steypti í heild. 1 bók-
inni eru margvísleg efni tekin til umræðu, svo sem eðli fegurðar, hvort
hún sé hlutlæg eða huglæg, list og tækni, samband forms og efnis, list
og siðgæði, tjáning fegurðar, og svo mætti lengi telja.
Að langmestu leyti er bókin greinargerð fyrir skoðunum og athugun-
um merkra fræðimanna um þessi efni bæði á liðnum öldum og þó
einkum nú á dögum. 1 formála segir höf.: „Eðli fegurðarinnar er enn
ráðgáta. . . . Sumir hallast að því (Kant og fleiri), að fegurðin sé
fólgin í sérstöku formi eða sambandi einstakra hluta við heildina eða
í hlutlægu samræmi. En aðrir halda fram líkri skoðun og Plató, sem sé
þeirri, að oss þyki allir þeir hlutir fagrir, sem vér skynjum í vort eigið
sálarlif eða finnum í tjáningu tilfinninga vorra.“ — Höf. kveðst hallast
frekar að hinu síðarnefnda sjónarmiði, enda er málafærsla hans einkum
við það miðuð. Auðfundið er, að höf. hefur lifað sig inn í þessi efni.
Hann dæmir víðast hvar um þau af persónulegri reynslu og sjálfstæði,
og eiginna athugana hans gætir nokkuð.
Það er sannarlega þakkarvert að hafa eignazt rit um þessi efni á ís-
lenzku. Þar var ekki um auðugan garð að gresja fyrir. Höfuðgildi þess
tel ég felast í því, að vakin er athygli á fagurfræðilegum viðfangsefnum
og bent á ýmsar leiðir, sem farnar hafa verið þeim til skýringar. Þær
skýringar eru margar hverjar vissulega skarplegar og vekjandi, þótt í
þeim felist ekki endanleg svör. Bókin er því fremur eins konar „hungur-
vaka“ en „opinberun". Hún vekur fremur löngun til þess að kynnast betur
heimi listar og fegurðar og torráðnum gátum, sem þar er við að glíma,
heldur en hún leiði lesandann í allan sannleika um þau mál, enda gefur
höf. slíkt hvergi í skyn.
Fegurðin hefur á öllum öldum verið uppspretta hinnar frjóu lífsnautnar.
Hún hefur andað mörgum manni þeirri tilfinningu í brjóst, að lífið sé
vert þess að lifa því. Sú er náttúra hennar. Það er ekkert hégómamál,
sem dr. Símon fjallar um í þessari bók, heldur heillandi viðfangsefni.
öll er efnismeðferð hans sérlega viðfelldin og hófsamleg og ber hvarvetna
vitni hinni mestu vandvirkni.
Bókaútgáfan Hlaðbúð hefur gefið bókina út og gengið smekklega frá
henni, eins og hæfir sliku riti.
Armann Halldorsson.
16