Skírnir - 01.01.1980, Síða 11
SKÍRNIR UM LEIKSTJÓRN 9
kannski leitað sér listrænnar útrásar með öðrum hætti. í leik-
stjórn flykktust menn, sem gátu hafið sig upp úr sínu hand-
verki og jafnvel búið til nýtt, sem voru það sem Frakkar nefna
animateurs og mætti kannski kalla glæðendur, menn sem sáu,
að hver sýning er aldrei sjálfri sér nóg og hefur tilgang út fyrir
sjálfa sig, menn, hverra fagurfræði var í stöðugri leit og stöðugri
mótun, menn, sem kannski í ríkari mæli en áður tóku, með
skáldunum, mið af hugmyndafræðilegum og stjórnmálalegum
átökum samtíma síns (ég er reyndar með kenningu um að mið-
aldaleikhúsið hafi verið eitthvert pólitískasta leikhús sem menn-
ingarsagan hefur þekkt, en þar um annars staðar); best þegar
samferða varð þessi leit að inntaki og fagurformi.
En hvað var nú svona nýtt við þetta? Einhver liefur nú þurft
að raða leikurunum upp áður, að minnsta kosti, eða velja verk-
um umhverfi. Og rétt er það, leikstjórinn er engin uppfinning
tuttugustu aldarinnar, hann var til löngu áður, en varð bara
svona seinn til fulls þroska.
Er þar frá mörgu að segja, allar götur til Grikkja. Sá leikstjóri
í dag, sem glímir við einhvern liinna fyrstu harmleikja, byrjar á
því að velta fyrir sér, hvernig hann leysi hlutverk kórsins. En ná-
kvæmlega sama vanda þurfti að leysa í Aþenu á fimmtu öld fyrir
Krist; valfrelsið var að vísu ívið minna. í fyrstu var það skáldið
sjálft, sem ákvarðaði, hvernig kórinn skyldi bera sig að — og
reyndar leikararnir líka, hann var sjálfur kannski protagonisti
eða fyrsti leikari, en síðar kom til sérstakur leiðbeinandi, sem
stýrði kórnum, svokallaður chorodidaskalos, sem hefur þá verið
allt í senn tónstjóri, dansstjóri og leikstjóri.
En þeir Æskýlos og Sófókles urðu ekki einu stórskáldin, sem
jafnframt voru leikhúsmenn. Sagan átti eftir að sýna okkur mörg
önnur slík dæmi og þau ekki af verri endanum. Að vísu þekkjum
við nöfnin á fæstum þeim, sem stóðu fyrir miðaldaleikjum. En
í raun þekkjum við líka nöfnin á fáum höfundunum og ekkert
sérstakt mælir gegn því, að þarna geti oft hafa verið að verki
sömu menn. Ekki síst þegar þess er gætt, hve bókmenntamenn
hafa látið sér fátt um þessa texta finnast, en í leiklistarsögunni
gegna þeir miklu hlutverki og hafa bersýnilega haft mikil áhrif
á hugi manna. Eftir því sem leið á miðaldir, varð sviðsetning