Skírnir - 01.01.1980, Blaðsíða 32
30
SICÍRNIR
JÓN VIÐAR JÓNSSON
illu og góðu", eins og hann segir sjálfur. í augum skáldsins er Loftur ofur-
mennið sem ætlar sér að ná því illa á vald sitt, „beizla myrkrið" og „standa
með alla vizku mannanna á þröskuldi leyndardómanna"; en i raun og veru
er hann aðeins valdasjúkur, lífsþyrstur unglingur sem „sökkvir sér niður f
gagnslausa hugaróra", trúir á særingar og galdra og deyr loks vitskertur,
kraminn af samvizkubiti og ógnum helvítis. . .. Dulrænn máttur óskarinn-
ar og barátta góðs og ills um sál mannsins er meginefni þessa sjónleiks, en
um þau mál höfðu önnur skáld og meiri fjallað á undan Jóhanni. Þar er
margt fagurra spakmæla og skáldlegra mynda, en næsta óákveðin virðist
heimspeki skáldsins og torskilin venjulegum mönnum.
Fjölmörg önnur dæmi mætti tína til, en ég held að þessi þrjú
sýni nægilega vel, hvert grundvallarviðhorfið til Lofts er, þrátt
fyrir ólíkt mat. Loftur er einhvers konar blendingur af Fást
Goethes — Jakobi Jóh. Smára finnst hann heilsteyptari persóna
en Fást! — og ofurmenni Nietzsches. Hann er ímynd hins full-
komna einstaklingshyggjumanns, sem á sér ekki aðra liugsjón
en þá að fullnægja eigin þekkingarþorsta og kynferðislosta.
Loftur er knúinn áfram af valdi dularfullra óska, sem ljá hon-
um djöfullegt yfirbragð og hefja hann af því hversdagslega
plani sem dauðlegir menn lifa á. Og þó að Ásgeir Hjartarson
og ýmsir fleiri þykist sjá þess merki að persónan sé allt öðru
vísi hugsuð frá hendi höfundarins, er hin hefðbundna sýn svo
sterk að enginn getur brotist undan henni. Ásgeir telur sig jafn-
vel þess umkominn að greina á milli hvernig persónan hafi verið
x augum skáldsins, „ofurmennið sem ætlar sér að ná því illa á
vald sitt“, og hvernig hann hafi verið í raun og veru, „valda-
sjúkur, lífsþyrstur unglingur“. Rök sín fyrir því hvernig Loftur
hafi „raunverulega" verið sækir hann í aðra persónu leikritsins,
Ólaf, og virðist þannig ekki gera ráð fyrir því að hann kunni
að túlka viðhorf höfundar að einhverju leyti. Á þessum for-
sendum er svo leikritið dæmt og léttvægt fundið. Ég ætla ekki
að dvelja lengur við þetta viðhorf hér, en mun síðar reyna að
sýna fram á að hér sé fremur um bókmenntalegan hleypidóm
að ræða en alvarlega tilraun til að skilja leikritið. Flestir gagn-
rýnendur — og raunar þeir bókmenntamenn sem hafa fjallað
um verkið — ganga að því sem vísu að leikritið sé ekki annað
en eins konar leikgerð þjóðsögunnar og að það hafi verið „ætl-
un“ skáldsins að skrifa íslenskt Fástleikrit. Spurningin er nú sú,