Skírnir - 01.01.1980, Side 62
60 JÓN VIÐAR JÓNSSON SKIRNIR
einstaklingur með öllum sínum séreinkennum, sem standi á
sviðinu, og gleymt því að það sé í raun og veru aðeins tiltekinn
leikari. Það er að vísu harla ólíklegt að Arnar Jónsson, sem var
aðeins um 25 ára gamall þegar hann lék Loft, eða nokkur annar
leikari í liópnum, hafi ráðið yfir þeirri tækni sem þarf til að
nálgast þetta markmið, en af lýsingu hans má þó ráða að í þessa
átt liafi verið haldið.6
Loftur var hér ekki lengur afburðamennið í baráttu við eilíf
völd sálar sinnar, heldur kornungur maður sem ákveðin ytri
skilyrði höfðu mótað. Hann bregst við umhverfi og fólki í sam-
ræmi við skapgerðareinkenni sín og örlög hans eru framar öðru
afleiðingar þessara viðbragða. Stanislavsky mælir svo fyrir, að
til þess að gera hegðan leikpersónunnar trúverðuga skuli leikar-
inn semja í huga sér nokkurs konar „undir-texta“, sem fylgi
texta leikritsins í stórum dráttum. Þessi texti er ekki samsettur
úr orðum, heldur persónulegum myndum sem Stanislavsky telur
hentugri til að vekja í brjósti leikarans þær tilfinningar, sem
eru nauðsynlegar til þess að gæða persónuna lífi. Persónusköp-
unin á því að vera byggð upp sem samfelld sálræn þróun, sem
leiði á sannfærandi hátt til atferlis persónunnar í sögu leiksýn-
ingarinnar. Greinilegt er að Arnar lagði mikla rækt við að skapa
slíkt samhengi viðbragða, tilfinninga og skapgerðareiginleika.
Að sjálfsögðu mátti þetta innra samhengi ekki verða einföld
keðja, þar sem eitt leiddi af öðru í beinu orsakasamhengi, held-
ur varð að gera ráð fyrir andstæðum og átökum. Þess vegna var
leitast við að finna að baki sérhverrar athafnar persónunnar
margar ólíkar kenndir og hugsanir, sem toguðust á um hana.
Með þessari aðferð var reynt að færa Loft niður á jörðina, gera
hann að manni í samfélagi með öðrum mönnum.
Til þess að geta búið til rökrænan „undir-texta“ og gera
framferði leikpersónanna sálfræðilega skiljanlegt urðu leikarar
og leikstjóri að lesa textann mun nákvæmar en áður hafði tíðk-
ast. Þau uppgötvuðu þá ýmislegt sem virðist hafa farið fram
hjá flestum fyrri lesendum textans. Það er athyglisvert, að þó að
sú greining, sem var gerð á textanum hér að framan, leiði til
allt annarra niðurstaðna, fer hún í sumum atriðum saman við