Skírnir - 01.01.1980, Side 66
64
SKÍRNIR
JÓN VIÐAR JÓNSSON
mér þó auðsætt, að bæði leikarar og bókmenntamenn hafa um-
gengist textann á alltof frjálslegan hátt og þóst sjá í honum
ýmislegt, sem sannanlega er þar ekki að finna.
Hin fástíska túlkun á Galdra-Lofti er ekki aðeins hugmynda-
fræðilega vafasöm; hún stenst ekki heldur þær kröfur sem menn
hljóta að gera til fræðilega gjaldgengrar bókmenntaskýringar.
í fyrsta lagi er hún reist á forsendu sem fær ekki staðist: að leik-
ritið sé leikgerð þjóðsögunnar og að Jóhann Sigurjónsson hafi
verið undir áhrifum af merkingu sögunnar. í öðru lagi er hún
reist á mjög takmörkuðu úrvali úr efnisatriðum leikritsins og
dregur af þeim alltof víðtækar ályktanir. Menn hafa einblínt
á að Loftur stendur á milli tveggja kvenna, skilið þær sem full-
trúa góðs og ills, rekið augun í þá yfirborðslegu samsvörun, sem
þannig verður á milli Fásts Goethes og Galdra-Lofts og sam-
stundis orðið sannfærðir um að Jóhann Sigurjónsson hafi ætlað
að skrifa íslenskt Fástleikrit. Og í þriðja lagi hefur þessi túlkun
í för með sér að leikritið verður bæði þokukennt og órökrænt.
Til bókmenntagreiningar verður að gera þá lágmarkskröfu að
hún skýri á sæmilega trúverðugan hátt, hvers vegna skáldið
gekk frá verkinu í endanlegri mynd þess og að hún taki tillit til
heildar þess. Sé leikritið skilið sem Fástdrama verður hins vegar
lítt skiljanlegt hvað vakti fyrir skáldinu og alls kyns veilur virð-
ast vera á verkinu. Helsta brotalömin er e.t.v. sú, að Loftur skuli
eiga að vera fulltrúi fyrir sammannleg átök og eigindir, en sé
þó um leið veiklundaður og ljóðrænn sveitastrákur, eins og bæði
Ásgeir Hjartarson og Gunnar Eyjólfsson bentu á. Aðrir gagn-
rýnendur hafa áfellst skáldið fyrir að láta jafn stórbrotinn
djöful verða geðbilaðan. Önnur brotalöm á verkinu verður sam-
band Lofts og Steinunnar. Sé hún fulltrúi hins illa, freistingar-
innar, er óútskýrt, hvers vegna Loftur skuli einmitt grípa til hins
illa, galdursins, til þess að losna við hana. Sé Steinunn aðeins
tálbeita djöfulsins hlýtur Loftur að berjast gegn henni með öll-
um tiltækum ráðum, harkan við hana verður þá merki þess að
hann sé enn á bandi „ljóssins“. Steinunn er hins vegar svo geð-
felld persóna og réttur hennar gagnvart Lofti svo ótvíræður, að
óhugsandi er að líta á grimmd hans gagnvart henni sem merki
um siðgæðislega fullkomnun. Hinn fástíski skilningur flækir sig