Skírnir - 01.01.1980, Blaðsíða 126
124 ÓLAFUR JÓNSSON SKIRNIR
Upphaf leikritunar á íslensku er sem sé rakið til hinna frum-
stæðu skólapiltaleikja Sigurðar Péturssonar, Matthíasar Joch-
umssonar, Indriða Einarssonar frá öldinni sem leið. Frá þeim
leikjum og sýningum telur Sveinn Einarsson í riti sínu um
Leikfélag Reykjavíkur að rekja megi annan meginþátt leikrita-
gerðar allt fram á þennan dag og kennir við rómantíska þjóð-
lífslýsingu, allt frá Skugga-Sveini til Gullna hliðsins. Hæst rís
sú leikhefð bæði á bók og leiksviði í hinum klassísku leikjum
Jóhanns Sigurjónssonar. En annan meginþátt leikritunar auð-
kennir Sveinn sem raunsæislega samtíðarlýsingu, innblásna af
viðfangi Leikfélagsins við erlendar samtíðarbókmenntir, allt frá
fyrstu tilraun af þessu tagi, Skipið sekkur eftir Indriða Einars-
son til Uppstigningar eftir Sigurð Nordal, og enn lengra fram.
Fremsti höfundur þessarar stefnu telst þá Guðmundur Kamban
með samtíðarleikjum sínum úr alþjóðlegu umhverfi.3
Stundum er talað um blómaskeið leikritunar og leiklistar all-
skömmu eftir stofnun Leikfélags Reykjavikur — „íslenska
tímabilið“ kallar Sveinn Einarsson árin 1907—20 í sögu félags-
ins. Það er þá sem leikir Jóhanns Sigurjónssonar koma fram
hver af öðrum og í kjölfar þeirra leikrit Einars Kvaran, Guð-
mundar Kamban; þá kemst festa á hina „þjóðlegu hefð“ í leik-
húsinu upp úr sýningum Nýársnæturinnar 1907, Skugga-Sveins
1908. Ekki er vert að gleyma því að Indriði Einarsson var okk-
ar fyrsta reglulega leikskáld, fyrsti höfundur sem gaf sig að
leikritagerð sem aðalviðfangsefni, og liggur eftir hann ekki lítið
verk, ef Shakespeare-þýðingarnar eru meðtaldar. En lítil rækt
hefur verið lögð við verk Indriða, ekkert þeirra leikið í Þjóð-
leikhúsinu nema Nýársnóttin, en Dansinn í Hruna síðast í
Iðnó 1942. Áreiðanlega væri þó vert að gefa líka gaum að öðrum
söguleik Indriða, Sverði og bagli, sem aldrei hefur komist á
leiksvið; og úr Nýársnóttinni mætti með réttu verklagi semja
á svið einhvern hinn besta barna-sjónleik. Það er að vísu ljóst
að til þess að leysa þessa leiki úr læðingi, semja þá til nútíma-
nota á sviðinu þarf að koma til frumleg leikforusta, þess um-
komin að umskapa og endurnýja hina þjóðlegu leikhefð; og á
það svo sannarlega við um fleiri hin sígildu þjóðlegu viðfangs-
efni leiksviðsins.