Skírnir - 01.01.1980, Page 139
SKÍRNIR
LEIKRIT OG LEIKHÚS
137
þá Stefán sem mögulegt mannlegt dæmi. Það sem best tekst í
leiknum er farsagerð lýsing smáborgaralegs fólks og lífshátta
alveg við og þar sem best lætur handan við landamæri skrípa-
leiks. Sbr heimsókn bankastjórahjóna til gjaldkerahjónanna í
seinni hluta fyrri þáttar: þar fær efnið, manngervingar og at-
ferli á sviðinu upp úr þurru leikrænt líf sem aldrei tekst að
koma að alvöruefnum leiksins. Líklega var líka næsta leikrit
Agnars, Spretthlauparinn, hans besti leikur — einskær skrípa-
leikur, ófölskvaður af neinskonar alvöru.
í öllu falli felst mesti styrkur höfundarins jafnan í einföldum
leikrænum persónugervingum raunhæfra manngerða, orðræðu
á mörkum hversdagsraunsæis og farsaleiks. Og smáborgaralegt
líferni og siðerni er jafnan yrkisefni hans. En í seinni leikritun-
um er eins og hann sé að missa öll tök á þessum efnum, mann-
gerð og lífsvanda sem hann hafði verið að fást við í sögum og
leikritum, og jafnframt bregðist hversdagsraunsæið og skopgáf-
an sem bar uppi hina fyrri leiki hans fyrir svið og útvarp. Upp-
reisn Finnboga skrifstofustjóra gegn prettvísu og svikulu sam-
félagi í Sannleik í gifsi er þannig ekki nema orðin tóm; og
samfélagslýsingin er raunfirrt með öllu, þau öfl sem ráða gangi
og þróun mála í leiknum ókunn og óskiljanleg, og gengur í
óttalegu basli að gera grein fyrir þeim; leikurinn reikar í rás-
inni milli afkárafarsa og raunsæislegs stofuleiks. Þaðan af síð-
ur tekst í Lausnargjaldinu að lýsa uppreisn æskunnar gegn
gömluðu foreldravaldi, úrsérgengnu verðmætamati eldri kyn-
slóðar — ef það var þá það sem vakti fyrir leiknum. Þar og
í ýmsum seinni leikþáttum Agnars fyrir útvarp og leiksvið
(Ungur maður með skegg, Sandur, Kona) er á hinn bóginn
reynt að auka efnið einhverri nýrri vídd með goðsögulegum eða
tákngerðum skírskotunum út fyrir bókstaflegt efni þeirra. En
höfundinum lætur síst af öllu að tjá á sviðinu tákndæmi og lík-
ingar um eitt eða annað; þá verður æpandi mótsögnin milli liins
natúralíska frásagnarforms og tilætluðu skáldlegu og táknlegu
merkingar.
En að vísu er höfundarferill og öll hin seinni verk Agnars
Þórðarsonar eftirtektarverð — upp á úrkynjun og endanlegan
vanmátt hefðbundinna raunsæislegra frásagnarhátta.