Skírnir - 01.04.1990, Blaðsíða 21
SKÍRNIR
ORÐRÆÐAN í KONUNGAKVÆÐUM
15
greinum við einmitt í frásögninni í Liðsmannaflokki, eins og ég mun
sýna fram á. En við verðum stöðugt að hafa í huga að þó að slík skrif
séu í augum nútímalesanda til þess fallin að velta upp spurningum um
eðli sjálfsverunnar, þá er ekki eins víst að það hafi vakað fyrir mönnum
víkingaaldar, enda fundu þeir, eins og við munum sjá, ekki eins sterk-
lega fyrir sjálfstæði hinnar einstaklingsbundnu sálfræðilegu sjálfsveru.
Hin hættan er sú að okkur takist ekki að hrista af okkur þá forsendu
nýrýninnar að öll kvæði þurfi að vera ein samfelld heild og freistumst
því til að draga þá ályktun að Liðsmannaflokkur sé ekki ein heild sök-
um þess að ýmislegt virðist einkennilegt í frásagnartækni kvæðisins.
Við fyrstu sýn virðist þessi grunur staðfestast í Knýtlinga sögu, þar sem
vitnað er í fjóra af helmingum flokksins í nokkuð annarri röð. En ég hef
annars staðar sýnt fram á að sú gerð flokksins sem varðveitt er í Ólafs-
sögunum sé upprunalegri og að gerðin í Knýtlinga sögu sé aðeins dæmi
um þær gríðarlegu styttingar sem sjá má annars staðar í því verki,
einkum í frásögninni af pílagrímsferð Knúts til Rómar.18 Ályktunin
sem draga má af þessum athugunum er sú, að þó að það sé keppikefli
bókmenntagagnrýninnar að geta borið fagurfræðilegt lof á
dróttkvæðin, þá sé það ekki aðeins afvegaleiðandi (distraction), heldur
beinlínis varasamt, ef það tekur á sig gervi textarýninnar og breytir
„paradosis“ (eða besta varðveitta texta) áður en búið er að gera heiðar-
lega tilraun til að takast á við hann.
Eins og ég hef nú sýnt fram á eru bæði bókmenntaleg og sagnfræði-
leg rök fyrir því að reyna að finna þessari tegund skáldskapar stað
meðal sérstakra þjóðfélagsafla á sérstökum tíma, með sérstaka hug-
myndafræði og fagurfræði, í stuttu máli, setja hana í sögulegt samhengi.
Við verðum að reyna að „hugsa hið annarlega". Við erum ekki lengur
einungis að skrifa heimildasögu eða bókmenntasögu, heldur að leggja
af stað í rannsóknarleiðangur sem nær yfir þetta tvennt, rannsókn á því
sem kallað er á fræðimáli orðræða (discourse). Að skoða Liðsmanna-
flokk eða sambærileg kvæði eingöngu út frá annað hvort sannleika
(sagnfræði) eða fegurð (bókmenntum) er að skoða þau frá of þröngu
sjónarhorni.
18 Um vinnubrögð höfundar Knýtlinga sögu, sjá Bjarna Guðnason, útg.,
Danakonunga sögur, íslenzk fornrit, 35, Reykjavík: Hið íslenzka
fornritafélag, 1982. Texta Liðsmannaflokks ræði ég í bók sem væntanleg er
frá University of Toronto Press.