Skírnir - 01.04.1990, Blaðsíða 234
228
RORY McTURK
SKlRNIR
ljóðinu í lok kaflans „Hlutdeild undir sólinni", nálægt bókarlokum, þar sem
Alda líkir lífi sínu við skipbrot og hefur gefið upp von um að lifa fram í janúar
næstkomandi. Ljóðið „VorDans" í fyrsta hluta bókarinnar, þar sem Alda
líkir elskhuga sínum við sígrænt tré sem faðmar hana að sér (bls. 38-39) má
bera saman við lýsingu í seinni hlutanum (bls. 139—40) á gönguferð um skóg
sem verður til þess að hún ímyndar sér þennan sama elskhuga, sem nú er
skilinn við hana, koma til sín í draumi og kenna sér að verða að dansandi tré
með krónu sem sólin skín í; og einnig má bera fagnandi tilvísunina til söngs
lóunnar, „dírrindí", í ljóðinu „VorDans", saman við „dírrindíleysuna" sem
Alda segist vera stödd í undir lok bókarinnar (bls. 187). Að lokum er
orðasambandið „á braut umhverfis“ notað í kynferðislegu og mjög sæluríku
samhengi framarlega í bókinni (bls. 48), en síðan aftur í seinni hlutanum og
þá í tengslum við sjálfsmorðið sem Alda veltir fyrir sér (bls. 148). Mörg fleiri
dæmi um slíkar endurtekningar og slíkt bergmál mætti tína til.
V
Sagt er að á dauðastundinni bregði allri ævi okkar í sjónhending fyrir augu.
Mun meiri tíðni afturgripa en framgripa í Tímaþjófinum, samþjöppun stunda
og staða sem felst í köflum þar sem eintektar- og endurtektarstaðhæfingar
samtvinnast, og endurtekning undir lokin á orðum og hugmyndum sem fyrst
komu fram nálægt upphafi - allt segir þetta mér að frásögninni sé ætlað að
endurspegla ævi Oldu eins og hún birtist henni sjálfri á síðustu
andartökunum fyrir andlátið. Þar sem elskhugi hennar, Anton, var
mikilvægasti þáttur ævi hennar er eðlilegt að hugsanir hennar snúist fyrst um
þá stund er hún hitti hann fyrst, við skólasetninguna, sem gefur fyrsta
kaflanum heiti sitt. En eftir því sem frásögninni vindur fram reikar hugur
hennar sífellt lengra aftur í tímann, til ýmissa æviskeiða hennar allt frá
frumbernsku, eins og tíð notkun afturgripa staðfestir, og veita lesandanum
aðgang að völdum köflum úr ævisögu hennar, eins og ég hef þegar vikið að,
og nú vil ég halda því fram að valið fari eftir því hvað hún muni af ævi sinni
á síðustu andartökum sínum.
Ef við snúum aftur að upphafsmálsgrein bókarinnar, sem ég hef þegar bent
á að er töluvert einkennileg: „Ég er of snemma á ferðinni, því úrið mitt hefur
seinkað sér,“ getum við tekið þetta sem enn eitt dæmi um að lok skáld-
sögunnar séu fólgin í upphafi hennar, og öfugt. Eitt af því sem hugsanir Öldu
snúast mest um undir lok skáldsögunnar er hvenær lík hennar muni finnast
og hvernig ásigkomulag þess verði: „Sem betur fer þarf ég ekki að vera hrædd
um að það verði farið að slá í mig áður en einhver kemur,“ segir hún, „því
Sigga lætur sjá sig í síðasta lagi hinn og það veit ég hún gerir í þetta skipti því
ég hef verið lasin“. En hún bætir þessu við um Siggu systurdóttur sína:
„Annars er hún hyskin við að heimsækja mig. Sem er næstum því móðir
hennar“ (bls. 188). Þó að ekki sé minnst á úr Öldu í frásögninni af síðustu
stundum hennar getum við gert okkur í hugarlund að ein af síðustu
hugsunum hennar sé að úrið hennar muni hafa hægt á sér og stöðvast þegar