Skírnir - 01.04.1990, Blaðsíða 109
SKÍRNIR
VINNAN OG MENNINGIN
103
að fólk þar hefur allt önnur viðhorf til vinnunnar en vestrænir nútíma-
menn. I bók sinni um hagfræði steinaldar hrekur mannfræðingurinn M.
Sahlins til dæmis þá trú margra, að veiðimenn og safnarar hafi þurft að
verja öllum tíma sínum í lífsbaráttuna og þess vegna ekki haft tóm til
að skapa sér andlega menningu. A grundvelii margra athugana mann-
fræðinga segir hann að hið gagnstæða sé nær sanni, það er að magn
vinnunnar á hvern einstakling hafi aukist með þróun siðmenningar-
innar. Frístundalíf hafi verið mun meira í frumstæðum samfélögum en
í nútímaþjóðfélögum. Niðurstaða hans er sú, að hver fullorðinn maður
í veiðimanna- og safnaraþjóðfélögum hafi að jafnaði varið þremur til
fimm stundum á dag í fæðuöflun.7 Lykilinn að viðhorfi þessa fólks til
vinnunnar er að finna í nægjusemi þeirra. Vinnan er ekki markmið í
sjálfu sér, né heldur neyslan. Menn í þessum samfélögum framleiða
aðeins fyrir nauðþurftum eða fyrir hefðbundnum þörfum. Rousseau
lýsti þessum þætti í lífi frumstæðra manna og sagði að í ríki náttúrunnar
hafi maðurinn litlar þarfir og hirði um fátt umfram þær. „Flann æskir
þess aðeins að lifa og vera frjáls frá vinnu. [...] Hinn siðmenntaði
maður er hins vegar á sífelldu iði, í þrælandi erfiði, og brjótandi heilann
um það hvernig hann geti komist í enn meira puð.“8
Sahlins tekur svipaða afstöðu og Rousseau og spyr hvort ekki geti
verið rangt að fordæma frumstæða menn fyrir iðjuleysið. Rétta álykt-
unin af samanburði frumstæðra og nútímalegra vinnusiða geti allt eins
verið sú, að nútímamennirnir vinni of mikið. Hvað sem slíkum álykt-
unum líður, virðist ekki hafa verið um einstefnu í þróun vinnutímans
að ræða, þegar litið er yfir sögu vestrænna þjóðfélaga. Vinnutími við
verðmætasköpun virðist hafa aukist mikið á fyrsta skeiði kapítalismans
en síðan dró víðast úr honum er leið á tuttugustu öldina.
En lítum þá á vinnuviðhorf kristninnar. Ekki er ofmælt þó sagt sé að
áhrif kristninnar á vinnusiðgæði á Vesturlöndum hafi verið gífurleg, og
á það ekki síst við um tilkomu hins nútímalega vinnuviðhorfs.
Viðhorf frumkristninnar til vinnu voru þó fremur neikvæð. Gyð-
ingar litu á vinnuna sem bölvun, refsingu Guðs fyrir óhlýðni Adams og
Evu í Paradís forðum, eins og frá er greint í Biblíunni. Fyrir frumhlaup
7 M. Sahlins, Stone Age Economics (London: RKP,1974), bls. 35.
8 J. J. Rousseau, The Social Contract and Discourses, þýðandi G.D.H. Cole
(London: Dent, 1973), bls. 104.