Skírnir - 01.04.1990, Blaðsíða 181
SKÍRNIR
AÐ LÆRA AF SÖGUNNI
175
brenndi fólk á báli, þvoði upp úr hlandi, taldi feigðarmerki að vera
ólúsugt.
Þegar hér er komið kemur mér ekki á óvart þótt einhver lesandi vildi
helst segja: Heyr á endemi. Hefur sagan ekki einmitt verið notuð til að
upphefja eigin þjóð, flokk, stétt, trúarbrögð á kostnað allra annarra? -
Og ég skal viðurkenna að þegar ég var að semja þennan pistil og fór að
hugsa út í hvernig sagan hefur verið og er sífellt notuð sem rembufram-
leiðslutæki í þágu hinna margvíslegustu hópa og málstaða, þá hvarflaði
að mér að fara strax út úr ritvinnslukerfinu og neita tilboði tölvunnar
um að vista skjalið. Hvað á maður að segja við þessu?
Jú, kannski er öruggast að sætta sig við að halda að saga sé bara eins
og hver annar efniviður í viðhorf. Það sé hægt að skapa úr henni nánast
hvaða viðhorf sem er, alveg eins og við getum byggt hvort sem er brú
eða víggirðingu úr sama efninu, eftir því hvaða teikningu við fylgjum.
Sé það rétt verðum við að horfast í augu við og viðurkenna að nú á
okkar dögum er nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr, kannski lífsnauð-
syn mannkynsins, að nota söguna til að byggja úr henni brýr fremur en
víggirðingar. Ríki verða nú æ fjölþjóðlegri. Nánast öll grannríki okkar,
Bretland, Danmörk, Svíþjóð, Vestur-Þýskaland, eru nú orðið byggð
fólki af mörgum litarháttum með ólík móðurmál og ólík trúarbrögð.
Þessari blöndun litanna, þjóðanna og trúarbragðanna verður ekki hætt;
mér finnst allt benda til þess að hún muni aukast, og geri þá það sem ég
talaði fremur virðingarlítið um hér áðan, að spá um þjóðfélagsþróun.
Kuldinn og vetrarmyrkrið mun ekki heldur halda okkur íslendingum
einlitum til lengdar. í Noregi er mér sagt að suðrænt flóttafólk reynist
falla best til í norðurhéruðunum; nú er verið að byggja mosku á lítilli
eyju norður í Troms, langt fyrir norðan heimskautsbaug. Á hinn
bóginn bendir ekkert til að þjóðernistilfinning sé á undanhaldi. Þvert
á móti blossa nú upp þjóðernishreyfingar, meira en nokkrar hreyfingar
aðrar, þegar losað er um hömlur á tjáningarfrelsi fólks í Sovétríkjunum,
og þannig kann að eiga eftir að fara víðar. Ef við stefnum í átt til þess
að blanda öllum menningum saman í eina heimsmenningu og öllum
litarháttum saman í einn gulbrúnan lit, þá verður sú þróun ekki á næst-
unni. Eina ráðið til að gera lífið bærilegt er að fólk læri að virða siði
þeirra sem eru öðruvísi en það sjálft. Til þess held ég að við þurfum að
nota sögu. Það er að mínu viti þjóðfélagshlutverk hennar.