Skírnir - 01.04.1990, Blaðsíða 231
SKÍRNIR FRÁSAGNAFRÆÐIN OG TÍMAÞJÓFURINN
225
síðari kafla, „Hlutdeild undir sólinni", þar sem hún talar um að stytta sér
aldur - gagnstætt því að drepa sig - ef heimsendir, sem hún ætlar að bíða eftir
í eitt ár, verður ekki fyrri til. Hinn meginflokkur framgripa - þau sem vísa
fram til atvika og aðstæðna sem varða Oldu, annarra en dauðans - er allur af
innri gerðinni og þau eru oft fremur smávægilegs eðlis, eins og í kaflanum
„Veislan á svölunum 11“ þar sem Alda ákveður með sjálfri sér að skipta
ástarsögu, sem hún fékk í afmælisgjöf frá Siggu, fyrir aðra bók daginn eftir.
Ef við gerum ráð fyrir því að hún framkvæmi þennan ásetning getum við litið
á þetta sem uppfyllandi innra framgrip. En eitt af framgripunum í þessum
flokki, sem er vissulega ekki smávægilegt, kemur fyrir þegar Anton tilkynnir
Öldu fimmtánda mars (á dánardegi Sesars, eins og Alda er fljót að taka eftir)
að hann ætli með konu sinni á ráðstefnu í Mexíkó og verði erlendis í þrjár
vikur; það er þegar hann kemur aftur úr þessari ferð að hann segir Öldu frá
sinnaskiptum sínum (sjá bls. 53 og 68).
Framgrip, sem Genette skilgreinir sem „fyrirfram frásögn eða forvísun til
atviks sem mun eiga sér stað síðar“12 (skáletrun mín), verður auðvitað að
greina frá vissri tegund af köflum, sem koma ósjaldan fyrir í Tímaþjófinum
og einkennast oft af viðtengingarhætti þátíðar, þar sem Alda veltir fyrir sér
hvað mundi gerast eða hvað hefði getað gerst ef aðstæður væru eða hefðu
verið öðruvísi. Dæmi um þetta eru bréfin þar sem hún ímyndar sér að hún
ferðist erlendis með Antoni (bls. 94-95), eða að hann bíði hennar á
flugvellinum þegar hún kemur aftur til íslands (bls. 106-07), eða hvernig hún
hefði getað hjálpað honum í starfi hans hefðu þau verið saman áfram (bls.
138). I þessum flokki eru einnig kaflar þar sem hún sér fyrir sér barnið sem
hún hefði getað eignast með Antoni (bls. 134-35), eða ímyndar sér sjálfa sig
á elliheimili (bls. 155-57) - en hér gefur notkun viðtengingarháttar þátíðar
sterklega í skyn að hún búist ekki við að lifa svo lengi; eða þegar hún veltir
upp þeirri spurningu hvað mundi gerast ef svo ólíklega vildi til að Anton dæi
á undan henni (bls. 158-59).
Tímaþjófurinn er, eins og ég hef sagt, fyrstu persónu frásögn, að lang-
mestu leyti í nútíð, og hefur að mestu leyti á sér það yfirbragð að frásögnin
fari fram samtímis atburðunum sem sagt er frá. Lok skáldsögunnar eru hins
vegar tvíræð, eins og ég held að komi nægilega vel fram af þeim kafla sem ég
tilfærði, og það er að minnsta kosti fræðilegur möguleiki að sögumaðurinn,
Alda, sé enn á lífi þegar því tímabili lýkur sem fyrsta frásögnin (með orðalagi
Genettes) spannar, en henni lýkur samtímis skáldsögunni. Það væri einnig
fræðilega hugsanlegt að skáldsagan innihéldi tilvísanir framávið í tíma til
atvika og aðstæðna sem vörðuðu Öldu eftir að tímabili fyrstu frásagnarinnar
lýkur, þ.e.a.s. eftir lok skáldsögunnar. Það væri hægt að ímynda sér, til dæmis,
staðhæfingar af þessu tagi: „Hefði ég vitað þá það sem ég veit núna hefði ég
hagað mér öðruvísi". Sú staðreynd að engar slíkar staðhæfingar er að finna,
og að framgripin eru öll af innri gerðinni nema þau sem vísa til dauða Öldu,
finnst mér gefa sterklega í skyn að okkur sé ætlað að gera ráð fyrir því að
12 Sjá Genette, Narrative Discourse, bls. 40.