Skírnir - 01.04.1990, Blaðsíða 65
SKÍRNIR
SPEKINGURINN MEÐ BARNSHJARTAÐ
59
síðarnefndi hafa verið vel að sér. En báðir voru þessi prestar stúdentar,
ekki háskólaprófsmenn. Þar af leiðandi höfðu þeir ekki réttindi til þess
að útskrifa stúdenta. Námi Bjarnar hér heima lauk með því að hann tók
stúdentspróf úr „heimaskóla" hjá biskupi landsins, Geir Jónssyni
Vídalín. Það var 1808.3
Nú var til lítils barizt, ef umbun erfiðisins við námið fengist ekki í
lífvænlegri stöðu, sem lærdómnum hæfði. Að minnsta kosti frá siða-
skiptum og til 1847 veitti íslenzkt stúdentspróf rétt til prestsembættis,
og voru þeir prestar langtum fleiri sem þeirri menntun einni gátu tjald-
að. Háskólakandidatarnir, candidati theologiæ, sátu þó fyrir beztu
brauðunum og áttu jafnan vísari frama en hinir.
Sjálfsagt hefur Björn dreymt annað en prestskap þegar hann var að
úða í sig latnesku málfræðinni á Hjaltabakka. Hann hafði þá þegar
kynnzt dönsku lautenöntunum Scheel og Frisach, sem hérlendis voru
við strandmælingar og annan undirbúning kortagerðar, lært af þeim
meira í stærðfræði en annars var yfirleitt kostur á hér á landi, auk alls
sem að landmælingum og kortagerð laut. Hafði hann áreiðanlega fullan
hug á að auka þá þekkingu sína og kunnáttu heldur en hitt. En hér
komu Napóleonsstyrjaldirnar ofan á efnaskortinn til hindrunar.
Frá 1808, þegar hann brautskráðist, og til 1817, mun hann hafa sótt
um nokkur minniháttar brauð sem losnuðu, en hafði þá ekki erindi sem
erfiði. I þessum aðventunauðum hefur hann komizt í samband við einn
kunnasta hneykslisprest þessara ára, síra Sæmund Hólm á Helgafelli.
Hversu sem því hefur verið háttað, þá sótti Björn um að vera vígður til
aðstoðarprests síra Sæmundar. Þetta var 1813, en einhvern veginn varð
því afstýrt, og fór þá ugglaust betur, því að á næstu árum hraktist
Sæmundur frá kjóli og kalli.
Það mun lengi hafa legið í loftinu að hugur Bjarnar stóð allur til
þeirra stærðfræðilegu greina sem hann hafði þegar sýnt ríka hneigð til
og hæfileika. Auk þess hafði hann sem fyrr segir þegar aflað sér þess
undirbúnings til að leggja stund á þær sem frekast voru tök á hérlendis.
í þá daga - og reyndar ávallt, bæði fyrr og síðar - hefur utanför til
háskólanáms kostað annað og meira en eina saman hæfileika og löngun,
3 Privatistar voru þeir kallaðir sem héldu heimaskóla og brautskráðu
stúdenta. Var Árni Helgason, síðast stiftprófastur í Görðum á Álftanesi og
biskup að nafnbót, þeirra athafnasamastur og hinn síðasti.