Skírnir - 01.04.1990, Blaðsíða 185
GREINAR UM BÆKUR
KRISTJÁN ÁRNASON
Horft upp í heiðið
Um Ijóð Stefáns Harðar Grímssonar
Stefán Hörður Grímsson.
Yfir heiðan morgun.
Mál og menning 1989.
ÞEGAR íslensku bókmenntaverðlaunin voru veitt í fyrsta skipti í upphafi
þessa árs og þau féllu í hlut Stefáns Harðar Grímssonar fyrir ljóðabókina Yfir
heiðan morgun, þótti mörgum sem ekki hefði getað tekist betur til við val á
verðlaunaþega og að hann varpaði síst minni ljóma á verðlaunin en þau á
hann. Með þessu vali var sem tilveruréttur verðlaunanna væri sannaður og
vopnin slegin úr höndum þeirra sem vildu kenna þessi verðlaun við skrum og
auglýsingamennsku, því hér var augljóslega á ferðinni höfundur sem síst allra
verður bendlaður við nokkuð þessháttar og hefur um annað hirt meir um
ævina en það að vera stöðugt í sviðsljósinu. Kveðskap hans verður seint líkt
við vatnsflaum sem flæðir mórauður og beljandi yfir byggðir og drekkir þar
öllu kviku en öllu fremur við tæran læk sem seytlar áfram uppi í óbyggðum
og seiðir til sín einkum þá sem hafa skarpasta heyrn, þótt það kunni hins
vegar að vera ofmælt, þegar skáldið í bókinni líkir yrkingum við það að skrifa
„ósýnilega letrun á ósýnilegan vegg“.
Verðlaunin voru raunar veitt fyrir eina bók Stefáns eða þá síðustu, en engu
að síður hljótum við að eigna fyrri verkum hans einhverja hlutdeild í
heiðrinum, þar sem verðlaunabókin má skoðast sem kóróna langs ferils eða
meira en hálfrar aldar göngu eftir einstigi ljóðlistarinnar. Sú ganga er auðvitað
sjaldnast bein og felst kannski meir í því sem skáldið kallar að „villast rétta
leið“ en að stefna rakleitt að ákveðnu marki. Ferill Stefáns hefur jafnvel verið
nokkuð slitróttur og einna líkast því á stundum sem farvegur skáldskapar
hans hafi legið undir yfirborði jarðar um tíma en sprottið svo upp aftur enn
tærari en fyrr. Fyrstu tvær ljóðabækur Stefáns komu út með tiltölulega stuttu
millibili, Glugginn snýr í norður 1946 og Svartálfadans 1951, en síðan líða
nær tveir áratugir þar til Hliðin á sléttunni birtist 1970 og þá rúmur einn þar
til Farvegir sjá dagsins ljós, 1981. Það kom því mörgum á óvart, hve stutt var
á milli tveggja síðustu bóka Stefáns, sem eru Tengsl 1987 og Yfir heiðan
morgun 1989, og það gæti verið freistandi, sé litið yfir skáldferil Stefáns, að
sjá þar tvö blómaskeið, hið fyrra og hið síðara, og á milli þeirra einhvers
konar biðtíma eða millibilsástand. Þrátt fyrir þetta virðist mega greina einna