Skírnir - 01.04.1990, Blaðsíða 53
SKÍRNIR
HUGLEIÐING UM FORNSÖGUR
47
mönnum verði dálítið hverft við, ef úr penna þeirra hrekkur málsgrein,
sem skilja mætti sem of mikla trúgirni, til dæmis ef helst til mikið væri
miðað við staði í Islendingasögum. En þá bregst ekki að komið er með
einhverja áréttingu til þess að sýna, að þeir séu nú samt sem áður
forsvaranlega „nútímalegir" í hugsun.
En nýlega hefur mér borið fyrir augu ritgerð, þar sem ekkert þarf að
árétta þannig. Þar er allt sagt með beinum og ákveðnum orðum, svo
enginn þarf að velkjast í vafa um skoðanir höfundarins. - Þar er hansk-
anum umsvifalaust kastað framan í alla þá, sem hafa verið svo barnalegir
að halda að við íslendingar ættum einhverjar heimildir um upphaf
byggðar í landinu.
Ritgerð þessi er eftir dr. Sveinbjörn Rafnsson, birt í hausthefti
Skírnis 1988 og nefnist „Frá landnámstíma til nútíma“. Dr. Sveinbjörn
skrifaði einmitt doktorsritgerð sína um þetta efni og í svipuðum anda,
en þó ekki í jafn alhliða ströngum tón. Þessi nýja ritgerð er alleftir-
tektarverð á sinn hátt. Varð ég þó nokkuð undrandi, þegar ég las hana.
Ég vissi að vísu að höfundurinn var ákaflega vantrúaður á forn rit og
þarna birtust að miklu leyti sömu skoðanir og fram komu í ritgerðinni
„Aðferðir og viðhorf“ í Skírni 1976. Hinsvegar hef ég í höndum örugga
heimild fyrir því að dr. Sveinbjörn taldi sér eitt sinn gert stórlega rangt
til, ef sagt var að hann rengdi Landnámu um allt. Einnig lét hann þá svo
ummælt að Landnáma væri „merk bók“.
En í þessari nýju grein er svo langt frá að hann hafi að nokkru
vitnisburð hinnar fornu bókar, að mér finnst varla ofmælt að segja að
hann tortryggi hana eða rengi um allt. Og hér virðist mér koma fram
einhver allra harðasta umfjöllun, sem ég hef séð á hliðstæðum vettvangi,
og er þá nokkuð sagt. I raun og veru er greinin ein samfelld ákæra á
sagnaritun Islendinga til forna - í þessu tilfelli eru það einkum höfundar
Landnámu og Islendingabókar, sem fyrir verða. Þar finnur hann enga
heila brú, aðeins goðsagnir, uppspuna, fals. Ég vildi gjarna tilfæra dæmi
úr þessari harðsoðnu grein, en það er hægar sagt en gert. Hún er svo
innilega einlit, varla ein málsgrein annarri ákveðnari. Þær eru það bara
allar.
I byrjun segir svo:
Sögusýn nútíma íslendinga er mótuð af íslenskri sagnaritun á miðöldum.
Forn sagnaritun um elstu sögu fslands þykir henta vel til endursagnar í