Skírnir - 01.04.1990, Blaðsíða 107
SKÍRNIR
VINNAN OG MENNINGIN
101
I. Fornar hugmyndir um vinnuna
í þeim ríkjum sem best er stjórnað [. . .] skyldi engum þeirra
[borgaranna] leyfast að stunda líkamleg störf eða viðskipti þar
eð slíkt gæti skaðað dygðir þeirra; eigi skyldu þeir heldur vera
búmenn, svo þeir megi óhindrað rækta dygðir sínar og
fullnægja skyldum sínum við ríkið. [. ..] Það er einnig
nauðsynlegt að þessir menn eigi allar landeignir; því nauðsyn
krefur að borgararnir séu ríkir, slíkt hæfir borgurunum því
enginn sá er stundar líkamleg störf ætti að hljóta borg-
araréttindi, né neinir þeir er ekki stunda göfug, heiðarleg og
dygðug störf. (Aristóteles)
I vöggu vestrænnar menningar, Grikklandi hinu forna, var vinnan litin
hornauga. Aristóteles sagði markmið ríkisins vera að ala lærða heiðurs-
menn, borgarana, menn sem sameini hugarfar og hæfni aðalsmanna og
unni lærdómi og listum. Gríska þjóðfélagið var stéttskipt og í hugum
Grikkja voru viðfangsefni manna einnig misjafnlega virðuleg. Hin
æðstu verklegu viðfangsefni, að sýsla við stjórnmál og varnir ríkisins,
voru ætluð hinum frjálsu og æðri borgurum. I Ríki Platóns skyldi
markmið menntunarinnar einkum beinast að því, að móta þá er áttu að
fara með þessi æðstu hlutverk í ríkinu. Nytsamleg vinna myndi aftra
borgurunum frá því að sinna þessum verðugu verkefnum og hlaut því
að vera til trafala. Þess vegna voru hagnýt störf við framleiðslu og við-
skipti aðeins ætluð hinum óæðri stéttum, þrælum og útlendingum.3
Grísku borgríkin voru að hluta byggð á þrælahaldi og forréttinda-
stéttin gat því leyft sér að fyrirlíta brauðstritið, einkum ef það fól í sér
þjónustu við aðra menn. Markmið hins virðulega Grikkja var að vera
frjáls og sjálfstæður og vinna aðeins ef honum sýndist, en alls ekki ef
honum fannst vinnan óskemmtileg eða óvirðuleg. I siðfræði Grikkja
hafði vinnan þannig lágan sess, og stingur það mjög í stúf við siðfræði
seinni tíma, ekki síst í hinu nútímalega markaðsþjóðfélagi. Lífsskoðun
Grikkja hefur því haft letjandi áhrif á vinnusemi borgaranna,
sérstaklega til hagnýtra starfa.
Rómverjar tóku að mörgu leyti upp vinnuviðhorf Grikkja og í sið-
fræði frumkristninnar ber einnig allnokkuð á neikvæðum viðhorfum
5 P. D. Anthony, The Ideology of Work (London: Tavistock, 1979),
bls. 16-25.