Skírnir - 01.04.1990, Blaðsíða 245
SKÍRNIR
239
MILLI LJÓSS OG MYRKURS
I þjóðsögum og ævintýrum má glöggt sjá hve miklu hlutverki
endurtekningin gegnir; þrítalan er næstum merkingarbær í sjálfri sér, lítið
„form-ferli“ (sbr. allt er þá þrennt er). En hvað er endurtekning? Hvernig á
að skilgreina hana? Hvaða áhrif hefur hún?
I Handan vellíðunarlögmálsins útskýrir Freud endurtekningarhvötina
með því að endurtekningin sé aðferð til að ná valdi yfir hinni sársaukafullu
eða erfiðu reynslu. Þetta tekur Brooks upp og segir að hlutverk margvíslegra
endurtekninga í bókmenntum, sé að koma böndum á eða virkja orku textans
til að hægt sé að ná valdi yfir honum. Að gefa textaorkunni form á þennan
hátt, þvingar okkur til að þekkja aftur „það sama - sem er öðruvísi". Okkur
gefst ekki kostur á að flýja bældan boðskap sem kann að vera óþægilegur.
Seinkanir, tálmarnir sem lagðar eru í veg okkar geta reynt á þolinmæðina, en
um leið er okkur gefið loforð um mikla umbun, merkingu sem ekki verður
náð öðruvísi en með því að ganga gegnum allt ferlið.
Merkingin
Á sama hátt og í fyrri réttarhöldum Yfirvaldsins verða þau síðari æ
ruglingslegri eftir því sem vitnaleiðslum fjölgar. Erfiðast er að kyngja því að
hin hryllilegu morð virðast framin að „ástæðulausu". Við fáum að vita hver
drap Nathan Ketilsson og hvernig - en hvers vegna?
Morðinginn, Friðrik, er sautján ára og lifir að hluta í eigin heimi sem á lítið
skylt við veruleikann umhverfis hann. Hin mikla fyrirmynd hans er Grettir
Ásmundsson, sagan af honum er ekki bara raunsæissaga í augum Friðriks,
heldur raunveruleiki. Hann trúir líka á sögur af útilegumönnum og grænum
dölum uppi í óbyggðum. Friðrik er ofvaxið barn. Móðir hans, Þorbjörg, er
heldur engin mannvitsbrekka og illmenni í þokkabót. Hún vill gjarna hagnast
á ódæðinu, en þó að hún sé siðlaus á hún ekki hugmyndina að morðinu.
Friðrik er ástfanginn af Sigríði, vinnukonunni á Illugastöðum, sem er
jafnaldra hans. Nathan misnotar Sigríði kynferðislega og misþyrmir henni,
hvort tveggja líkar Friðrik stórilla. En hann á sjálfur ófríska unnustu heima
í Katadal og í vitnaleiðslum kemur fram að ef hann gæti raunverulega valið
sér kvonfang myndi hann hvoruga þessara velja heldur þá þriðju, dóttur
stórbónda! Ástríðufull ást á Sigríði eða afbrýðissemi eru þannig ekki ástæður
þess að Friðrik drepur.
Sigríður er líka ofvaxið barn. Hún styður morðáætlanirnar þegar Nathan
er vondur við hana en vill síður að hann sé drepinn þegar hann er góður við
hana og hún slær úr og í. Hin vinnukonan, Agnes, er 33 ára, lífsreynd kona
sem gerir sér engar grillur um líf sitt né annarra. Hún hatar Nathan, en veit
mæta vel að hún verður ekki betur sett þótt hann sé drepinn. Samt er það hún
sem er hægri hönd Friðriks við ódæðisverkin. Hvers vegna?
Eftir því sem vitnaleiðslunum fjölgar kemur í ljós að margir nágrannanna
vissu um morðáætlanirnar og biðu þess að eitthvað gerðist í þá veru. Enginn
skarst í leikinn, enginn hafði neinn sérstakan áhuga á því hver yrði myrtur eða
ekki.