Skírnir - 01.04.1990, Blaðsíða 50
44
KRISTÍN GEIRSDÓTTIR
SKÍRNIR
III
Allt frá því að ég man fyrst eftir mér hef ég borið því nær takmarkalausa
virðingu fyrir svokallaðri æðri menntun, og það geri ég vissulega enn
í dag. Bæði fyrr og síðar hef ég hugsað með dálítið öfundarblandinni
aðdáun um það lán og þau forréttindi, sem fellur þeim í skaut, sem
hlotið hafa langskólamenntun, - en hún var raunar enganveginn algeng,
þegar ég var ung, - jafnvel þó að mér hafi ævinlega verið ljóst að ekki
myndi allt vera fengið með skólalærdómi, og einnig það að vandi fylgir
vegsemd hverri. En ég hef ætíð dýrkað þekkinguna, einkum þó á þeim
sviðum, sem mér eru hugleiknust, mannfræði, sögu og bókmenntum,
Og ég hef harmað sárlega að verða alltaf að horfa á þessa hluti með
augum leikmannsins, þess sem stendur álengdar, en ekki af sjónarhóli
hins lærða manns, sem ætla má að hafi aflað sér þeirrar vitneskju, sem
fáanleg er, og hefur því möguleika á að sjá hlutina í víðara samhengi,
sem ekki er í neinni líkingu við þröngt og takmarkað svið heim-
alningsins. Ég hef ekki heldur haft þrek eða dugnað til að öðlast nándar
nærri þá þekkingu á kjörsviði mínu, sem ég veit að sumir sjálfmenntaðir
menn hafa þó náð. Ég hef aðeins reynt að skyggnast ofurlítið eftir þeim
bjarma, sem leggur frá dularheimum þessara fræða.
Ekki leikur neinn efi á því, að rétt er og sjálfsagt að beita raunsæi og
glöggskyggni við rannsóknir fornrita. Það kann víst ekki góðri lukku
að stýra að láta drauma og óskhyggju villa sér sýn eins og ég býst við
að marga hafi hent áður fyrr. Eigi að síður álít ég að nú sé gengið of
langt og farið út í gagnstæðar öfgar, engu minni hinum fyrri. Það leynir
sér ekki, að þessir tuttugustualdarmenn telja sig þess umkomna að taka
sér þarna algjört sjálfdæmi.
Það vildi svo til, að nú fyrir skömmu, einmitt þegar ég var að reyna
að koma saman uppkasti að þessari hugleiðingu, þá varð fyrir mér önn-
ur ritgerð eftir Einar prófessor Arnórsson. Sú ritgerð nefnist „Notkun
rúnaleturs á íslandi frá landnámsöld og fram á 12. öld“u. Hafði ég
aldrei séð hana fyrr né heyrt hennar getið svo mér sé vitanlegt. Ég varð
afskaplega undrandi þegar ég las hana, ég sé ekki betur en að þarna megi
"Saga I. bindi (1949-53), bls. 347-397.