Skírnir - 01.04.1990, Blaðsíða 179
SKÍRNIR
AÐ LÆRA AF SÖGUNNI
173
geri ráð fyrir að sögulausu fólki, eða fólki með stutta sögulega vitund,
hætti til að halda að tilveran haldi áfram að vera eins og hún er eða
breytist í einhverja eina beina stefnu, þá stefnu sem hún virðist hafa í
svipinn. Saga ætti að geta kennt og innrætt að möguleikarnir eru í raun
miklu fleiri og erfiðari að sjá fyrir. Hagspár ganga venjulega út frá því
að þróunin verði beint framhald þess sem er að verða einmitt nú, nema
eitthvað fyrirsjáanlegt hafi áhrif á hana. Ef við bærum saman eftir á
fjölda af hagspám og raunverulegum breytingum gætum við líklega
dregið af því eina og aðeins eina heildarályktun: spárnar rætast ekki.
Við höfum, og höfum haft í fortíðinni, mergð af fræðigreinum til að
komast að því hvað muni leiða af gerðum okkar og hvað við eigum að
gera til að ná ákveðnu marki: að breyta blýi í gull, að komast hjá að fá
hjartasjúkdóma, að byggja hús og brýr þannig að þau haldi, að draga úr
verðbólgu, auka hagvöxt, fækka glæpum, jafnvel að öðlast eilíft líf á
himnum eftir dauðann. Allar þessar greinar stefna að því að finna
endanlega eina rétta leið og takmarka þannig valkosti okkar. Sagn-
fræðin ein stefnir að því að opna augu okkar fyrir nýjum, óvæntum og
ófyrirsjáanlegum valkostum. Svipuð aðgreining tvenns konar hugsunar
skilst mér að sé þekkt undir ýmsum nöfnum í sálfræði. Að safna og
beita réttum upplýsingum er af sumum kallað samhverf hugsun (con-
vergent thinking á ensku), það er hugsun af því tagi sem ég kenni hér
við dæmigerð vísindi. Sundurhverf hugsun (divergent thinking) er hins
vegar að láta sér detta í hug eitthvað nýtt.1 Að þess konar hugsun á
sagan að leiða.
Það þykir kannski ekki ýkja merkilegur eða gagnlegur lærdómur að
framtíðin sé óræð og óútreiknanleg. Og ég geri ráð fyrir að hag-
fræðingar muni til dæmis segja að það sé vel ómaksins vert að reyna að
sjá fyrir þróun á ákveðnum sviðum þjóðlífsins og reyna að bregðast við
henni fyrirfram. Það skal ég ekki rengja, enda hef ég engan áhuga á að
fólk hætti að rýna í framtíðina. Eg þykist líka vita að hagspár rætist af
og til, ef maður gerir ekki fjarska harðar kröfur um nákvæmni. En það
er annað sem fylgir, eða ætti að geta fylgt, vitneskjunni um fjöl-
breytileika tilverunnar, og það er að læra að líta á lífshætti okkar sem
eina meðal ótalmargra og kannski engu mikilvægari eða betri en hverja
1 Gordon Connell-Smith og Howell A. Lloyd: The Relevance of History
(London: Heinemann Educational Books 1972), s. 108-09.