Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2012, Side 85
ætíð einhver gestur utan fjölskyldunnar við sabbatsborðið á bernskuheimili
Wiesels. Þar var fátæku fólki og aðkomumönnum veitt liðsinni og því
sannarlega lifað í anda hinna gyðinglegu kenninga og fræðirita. „Maður
skyldi aldrei iðrast þess að hafa gefið fátækum of mikið eða hafa lesið of
mikið,“ var faðir hans vanur að segja.
Vináttan
Elie Wiesel verður tíðrætt um gildi vináttunnar í bókum sínum. Oft er
vitnað til þeirra orða hans að vináttan sé dýrmætari í lífinu en ástin.15
Vináttan er áreiðanlegri, traustari. Astin eigi það á hættu að verða eigingjörn
en vináttan sé alltaf fólgin í því að gefa af sér. Það komi fyrir að menn drepi
aðra manneskju af ást en aldrei af vináttu.
Wiesel leggur áherslu á gildi vináttunnar í sínu eigin lífi. Hann segir að
það hafi dregið úr einsemd hans ef hann vissi að einhver vænti einhvers af
honum. Þannig tók hann þátt í framtíð viðkomandi, vonum hans og þrám.
Wiesel hefur skrifað skáldsögur sem eru óður til vináttunnar. í bókinni
Hlið skógarins spyr hann hvað vinur sé og svarar: „Það er einhver sem í
fyrsta sinn gerir þig meðvitaðan um einsemd þína og hans; hann hjálpar þér
úr einsemd þinni til að þú hjálpir honum úr hans. I félagsskap hans getur
þú verið hljóður án þess að skammast þín og opinn án þess að finnast þú
niðurlægður.“16
Wiesel segist oft hafa hugsað til bernskuvina sinna í Auschwitz, til allra
þeirra sem voru hluti af hans innra landslagi, en í búðunum hafði hann
ekki vini bernsku sinnar og raunar enga bernsku lengur. „Ég hafði bara
föður minn, minn besta vin, minn eina vin,“ skrifar Wiesel og aftur og
aftur í bókum sínum kemur hann inn á hið mikilvæga samband föður
og sonar.
Um þýðingu vináttunnar innan Auschwitz segir hann að ekki sé vafi á
því að þeir sem áttu vin þar, bróður eða einhvern annan sem þeir létu sér
annt um, eða þá trú eða einhverja hugsjón sem skipti þá miklu hafi haldið
út lengur. Sjálfur hafi hann haldið út vegna föður síns og hafi leitast við
að lifa vegna hans og það var gagnkvæmt.17 Ótal hliðstæðar frásagnir hefur
maður lesið frá þeim sem lifðu af dvölina í útrýmingarbúðunum.18
15 Wiesel 1996, Alla floder rinner mot havet, s. 63.
16 Sjá Wiesel, 1996, Alla flode rinner mot havet, s. 69.
17 Wiesel 1996, Alla floder, s. 107.
18 Hér má t.d. nefna bók Primo Levi, Survival in Auschwitz 1996, einkum s. 57.