Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2012, Síða 154
við Jesú feli í sér,5 eða því að í þeirri eftirfylgd felist ókvæni (e. celibacy)
og í sumum tilvikum algert skírlífi (e. virginity). I eítirfarandi grein verður
sjónum beint að þessari túlkun í því markmiði að varpa skýrara Ijósi á
þessi stef frá sjónarhorni guðfræðilegrar siðfræði og hugmyndasögu. Sem
guðfræðilegt þema er eftirfylgdin við Jesú mikil að vöxtum í kristinni sögu6
og hefur hlotið ítarlega, fræðilega umfjöllun innan guðfræði í aldanna
rás.7 Hér er markmiðið mun hógværara — eftirfylgdin við Jesú í öllu sínu
ríkidæmi er ekki í kastljósi greinarinnar heldur er látið nægja að beina
sjónum að nokkrum textum Nýja testamentisins ásamt fáeinum dæmum
um hugleiðingar kunnra, kristinna manna í því skyni að varpa ljósi á þá
kristnu siðferðilegu hugsjón8 að í sannri eftirfylgd við Jesú felist einlífi og
skírlífi.
Hugmyndir um hvað felist í eftirfylgdinni við Jesú í Nýja
testamentinu
í samstofna guðspjöllunum má finna fjölmörg ummæli, lögð í munn Jesú,
sem tengjast eftirfylgdinni við hann. Nokkur þeirra má túlka svo að sú eftir-
fylgd felist í einlífi og jafnvel skírlífi, fremur en hjónabandi og fjölskyldu.
í 19. kafla Matteusarguðspjalls á Jesús samtal við nokkra farísea sem spyrja
hann um afstöðu hans til hjónaskilnaða. Jesús er andsnúinn því viðmiði
sem skilnaðarlög Gyðinga byggðu á en mætir því með, að því er virðist,
ennþá harðara viðmiði: „Ég segi ykkur: Sá sem skilur við konu sína, nema
sakir hórdóms, og kvænist annarri drýgir hór.“ (v. 9) Lærisveinar hans eru
greinilega agndofa yfir þessu svari og segja við Jesú að ef þessi regla gildi, þá
virðist betra að láta það ógert að giftast. Jesús segir þá: „Það er ekki á allra
færi að skilja þennan boðskap heldur þeirra einna sem það er gefið. Sumir
5 Sólveig Anna Bóasdóttir, „Sex eller celibat? Kristendomen och synen pá sexualitet", Sex - För
Guds Skull: Sexualitet och Erotik i Varldens Religioner, Antoon Geels og Lena Roos ritstj., Lund:
Studentlitteratur, 2010, bls. 49-69.
6 Sbr. Breytni eftir Kristi (De Imitatione Christi), eftir Thomas A. Kempis (um 1380-1471), Prentað
og gefið út af kaþólsku kirkjunni á íslandi 1955. Endurprent offsetprentaði 1976.
7 Hér verður látið nægja að vísa til doktorsritgerðar í guðfræðilegri siðfræði sem fjallar ítarlega um
efnið, sjá Soon-Gu Kwon, Christ as Example: The Imitatio Christi Motive in Biblical and Christian
Ethics, Uppsala: Acta Universitatis Upsaliensis, 1998.
8 Mikilvægt er að ítreka að siðferðileg hugsjón eða draumsýn (e. ideat) er annað en siðferðileg
regla (e. rulé). Hugsjón felur í sér sveigjanlegt viðmið (e. norm) í siðfræðilegri orðræðu og vísar
til æskilegrar breytni eða mikilvægs leiðarljóss fyrir breytni. Yfirleitt er litið svo á í siðfræðilegri
orðræðu að ekki sé hægt að skylda fólk til að gera hugsjónir að reglu fyrir breytni. Menn eiga þess
kost að játast hugsjónum og fylgja þeim í lífi sínu, en það er ekki siðferðileg skylda. Sjá t.d. Igor
Primoratz, Ethics and Sex, London og New York: Routledge, 1999, bls. 167-175.
152