Orð og tunga - 01.06.1990, Síða 50
28
Orð og tunga
við uppflettimynd sagnarinnar þegar svo háttar til að ekki er um hliðstætt nafn-
orð í íslensku að ræða og reyndar bent sérstaklega á mun málanna tveggja að
þessu leyti í leiðbeiningum bókarinnar.
Tilhneiging til að ná fram sambærileika við orðið sem þýtt er kallar út af fyrir
sig ekki á fjölorða þýðingar og samheitanotkun nema síður sé, sambærileikinn
væri fyrst fullkominn með einu hnitmiðuðu þýðingarorði. Þegar um sérfræðilegan
orðaforða er að ræða er reyndar keppikefli að ná fram slíkri hnitmiðun, en þegar
fengist er við hinn almennari orðaforða eru nýmyndanir sem kvikna af erlenda
orðinu miklu oftar í hópi annarra þýðingarorða, sem eins konar ábending um að
erlenda orðið standist ekki fullkomlega á við neitt þýðingarorðanna, jafnvel með
það í huga að forðast beri samhverfu við fastmótuð orð og betur geti farið á því
að tjá hugtakið með nýju eða óbundnara orði.
Áhrif á íslenska orðabókahefð
Erlend-íslenskar orðabækur og orðasöfn eru mikið kjörlendi íslenskra nýyrða og
samheita. Og sú hefð sem mótast hefur við gerð slíkra bóka hefur haft veruleg
áhrif á íslenska orðabókagerð almennt. I fyrstu íslensku eins máls orðabókinni,
Orðabók Menningarsjóðs, sem fyrst kom út árið 1963 og í nýrri útgáfu árið 1983,
draga orðaskýringar mjög dám af þessari hefð, samheitaskýringar eru ráðandi
og víða seilst til nýrra og nýstárlegra orða í skýringum á kostnað skilgreininga
og nákvæmrar afmörkunar (sjá Jón Hilmar Jónsson 1985a). Það er svo annað
athugunarefni hversu mikið er um uppflettiorð í bókinni sem eiga tilvist sína að
þakka þýðingu á erlendu orði. Auðveldara er að koma auga á slík orð í orðabók
Sigfúsar Blöndals sem m.a. hefur að geyma fjölda orða sem þaðan voru tekin
upp í orðabók Freysteins Gunnarssonar.
Bein áhrif erlend-íslenskra orðabóka eru enn greinilegri í Islenskri samheita-
orðabók frá 1985. Samkvæmt formála hennar er önnur meginheimildin Dönsk
orðabók Freysteins Gunnarssonar enda eru áhrifin þaðan auðsæ, bæði að því
er varðar orðaval og samheitatengsl. Þar hafa mörg orð, sem í upphafi komu
fram sem þýðingarorð, varpað því gervi af sér og stigið fæti sínum inn í alís-
lenskt orðabókarumhverfi þar sem þau samlagast öðrum og rótgrónari orðum.
Að þessu leyti eru erlend-íslenskar orðabækur eins konar uppeldisstöð fyrir ís-
lensk nýyrði og samheiti sem grípa má til þegar þörf krefur og reyna má að koma
til frekari þroska með því að marka þeim stöðu í alíslenskum orðabókum.
Lokaorð
Eg hef í þessu spjalli reynt að varpa ofurlitlu ljósi á íslenskar orðabókaþýðingar
og þá hefð sem íslensk orðabókagerð býr að í því sambandi. Eg hef sérstaklega
staldrað við gildi þýðinganna að því er varðar hlut þeirra að eflingu íslensks orða-
forða og örvun orðmyndunar. I ljósi þýðinganna hafa menn virt fyrir sér og metið
stöðu íslensks máls gagnvart erlendum málum og áhrifum þeirra. I viðbrögðum
orðaforðans við þýðingaráskorun fléttast saman viðleitni til að ná fram hnitmið-
un og endurspeglun annars vegar og að gera grein fyrir sérstöðu og ósambærileika
hins vegar þannig að oft gætir hvors tveggja við þýðingu á einstökum orðum.