Ráðunautafundur - 20.02.1996, Page 261
253
Fótstaða. Kýr með sterklega fætur og gleiða fótstöðu, svo júgur sé ekki þvingað er kýrin
hreyfir sig, getur fengið hæstu einkunn. Hæklarnir eiga þá að snúa beint aftur, klaufir beint
fram og fótleggirnir að vera lóðréttir. Algengustu gallar eru of nánir hæklar og/eða hokin
afturfótastaða.
Júgur, gerð og lögun. Júgur sem ná langt fram, vel upp að aftan og eru rýmismikil og vel
borin fá hér hæstu einkunn. Þessi júgur eiga auk þess að vera jafnbyggð. Algengustu gallar eru
misræmi í stærð júgurhluta og einnig illa löguð júgur, s.s. pokajúgur.
Júgurskipting og festa. Júgur sem fær hæstu einkunn á að vera sem næst samfellt milli fram-
og afturhluta júgursins, en sem næst óskipt milli helminga. Þá þarf júgrið einnig að vera mjög
vel borið og hafa trausta festingu við bol. Algengustu gallar eru mikið skipt júgur og léleg
festa við bol.
Staðsetning spena og lengd. Til að hljóta hæstu einkunn eiga spenarnir að vera reglulega
settir og hæfilega stórir, fjórir til sex sm. Langir spenar og óregluleg spenasetning eru algengir
gallar.
Lögun og gerð spena. Spenarnir þurfa að vera sívalir, jafnsverir og með ávalan odd til að geta
fengið hæstu einkunn. Grófir spenar og ójafnir spenar eru algengir gallar. Aukagat á spena eða
samvaxinn aukaspeni fellir einkunn í 4-6 fyrir þennan eiginleika.
Mjaltir. Mat á þessum eiginleika byggir á mati bóndans og er hæsta einkunn 20. Kýrnar eiga
að vera jafn- og lausmjólka, en þó ekki lekar. Algengustu gallar eru mismjaltir og/eða þungar
mjaltir.
Skap. Mat á eiginleikanum fyrir skap er byggir á umsögn umsjónarmanns og er gefið á bilinu
einn til fimm. Kýrnar eiga að vera traustar og þægilegar í umgengni. Algengur galli er
viðkvæmni í skapi en einnig ber aðeins á skapillum kúm.
b) Línulegt útlitsmat íslenskra kúa
Jón Viðar Jónmundsson og Magnús B. Jónsson völdu út þá eiginleika sem eðlilegt þótti að
skoða, byggt að mestu á línulegum dómstiga Dana. Þegar val á þeim eiginleikum lá fyrir var
útbúið skráningarform þar sem þeir 18 eiginleikar sem skrá átti og skoða voru skilgreindir.
Ákveðið var að sleppa nokkrum eiginleikum sem Danir skoða, sem eru stærð, mjaltalag, fóta-
og hækilgerð og júgurbreidd. Þess í stað var bætt við eiginleikanum bratti mala. Eiginleikarnir