Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Page 6
5
FRÁSAGNIR Á TÍMUM LOFTSLAGSBREYTINGA
eða ills: 874, 930, 1000, 1262, 1402, 1550, 1602, 1707, 1783–1785, 1904,
1918, 1944, 2008.
Þegar ljós ritaldar þrýtur, teygir tilbreytingarlítil saga mannkyns sig
aftur um þúsundir ára. Eftir því sem aftar dregur verða kennileitin fátíðari
þótt stundum bregði undarlega ríkri birtu yfir sögu okkar, eins og í hell-
unum í Lascaux fyrir 17 þúsund árum. En eftir því sem lengra er haldið
aftur í tímann týnist maðurinn í svartnætti þagnarinnar sem aðeins verður
miðlað með getgátum studdum af blindletri steingervingafræðinnar.
Ef öll okkar saga væri færð í orð af framandi sagnfræðingi sem horft
hefði á mannkyn taka fyrstu skrefin á sléttum Afríku teygði hún sig tvö-
hundruð þúsund ár aftur í tímann. Ekki þarf auðugt ímyndunarafl til þess
að sjá að tímamótin hafa verið mörg á þessari löngu vegferð. Fyrir um 70
þúsund árum þurrkaðist mannkynið til dæmis næstum út, í hamförum sem
kunna að hafa tengst ofureldgosi í Toba-fjalli á eyjunni Súmötru.5
Þó smækkar þessi mikla saga ,hins viti borna manns‘ nánast niður í
neðanmálsgrein þegar atburðir líðandi stundar eru skoðaðir í þróun-
arsögulegu samhengi. Ýmsar nýlegar rannsóknir gefa til kynna að nú séu
að verða vatnaskil í sögu lífs á jörðinni, sjötta útþurrkunarskeiðið sé þegar
hafið, en hin fimm dundu yfir með jöfnu millibili á síðustu 450 milljón
árum. Líklega er fátt forvitnilegra en að upplifa í samtíma sínum breyt-
ingar sem gerast á tugmilljón ára fresti. Þó fer furðu lítið fyrir fréttum af
rannsóknum vísindasamfélagsins á þeim róttæku og alvarlegu breytingum
sem nú eru að verða á jörðinni. Slíkt er sár vitnisburður um aumlegt ástand
í menntamálum heimsins og alvarlegur áfellisdómur yfir þeim kynslóðum
sem nú eru beinir gerendur í atlögunni að vistkerfi jarðar.6 Það frásagn-
arverðasta í samtíð okkar er jafnframt það sem fæstir vilja ræða.
Mannkyn stendur á tímamótum og ef fram fer sem horfir verður sá
5 Sjá t.d. Bill McGuire, A Guide to the End of the World: Everything You Never Wanted
to Know, Oxford: Oxford University Press 2002.
6 Ýmsar bækur hafa verið skrifaðar um sjötta útþurrkunarskeiðið á undanförnum
árum, en líklega er bók Elizabeth Kolbert, The Sixth Extinction: An Unnatural
History (New York: Henry Holt and Co. 2014) sú þekktasta, en Kolbert hlaut
Pulitzer-verðlaunin fyrir bókina 2015. Af öðrum merkum bókum um viðfangs-
efnið má nefna Clive Hamilton, Requiem for a Species: Why We Resist the Truth About
Climate Change, London og New York: Earthscan 2010. Fjölmargar bækur takast
á við viðfangsefnið og þann flókna vanda sem mannkyn stendur frammi fyrir. Hér
nægir að nefna tvær: David W. Orr, Down to the Wire: Confronting Climate Collapse,
Oxford: Oxford University Press 2009; og Roy Scranton, Learning to Die in the Ant-
hropocene: Reflections on the End of a Civilization, San Francisco: City Lights Books
2015.