Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Side 10
9
Ritið 1/2016, bls. 9–33
Guðrún Elsa Bragadóttir
‚Að kjósa að sleppa því‘
Olíuleit, aðgerðaleysi og hinsegin möguleikar
Sem stendur myndi ég kjósa að sleppa því að vera svolítið skynsamur.
(„Bartleby the Scrivener“, Herman Melville)
Ég tel að það sé unnið alltof mikið í heiminum, að það valdi miklum skaða
að trúa að vinna sé dyggð, og að það þurfi að breiða út boðskap afar ólíkan
þeim sem hefur alltaf verið boðaður í iðnvæddum löndum nútímans.
(„In Praise of Idleness“, Bertrand Russell)
Sagan af ritaranum Bartleby eftir Herman Melville lýsir furðunni sem
vaknar þegar manneskja gerir ekki það sem til er ætlast, þótt hún sé bæði
fær um að gera það og myndi hagnast á því. Frásögninni vindur fram með
stöðugu hökti. Lögfræðingur á Wall Street segir frá því hvernig Bartleby,
duglegasti starfsmaður hans, hættir einn góðan veðurdag að hlýða fyr-
irmælum með orðunum „ég myndi kjósa að sleppa því.“1 Uppfrá því svarar
Bartleby skipunum alltaf á sama veg, hættir loks alveg að afrita og próf-
arkalesa skjöl, en heldur kyrru fyrir á skrifstofunni og sest þar að, yfir-
manni sínum til mikillar mæðu. Fram að sögulokum er Bartleby aðeins til
trafala og þótt hann sitji þögull og láti lítið fyrir sér fara, truflar nærvera
hans virka þátttakendur atvinnulífsins, fyrst og fremst vegna þess hversu
fáránleg hún þykir.
Flest tengjum við umhverfisaktívisma við aðgerðir sem felast í og leiða
til kyrrstöðu: það að hindra, teppa, tefja, standa í vegi fyrir, stöðva. Hér
skerða líkamar getu annarra líkama – hvort sem þeir sitja í vinnuvélum eða
skrifstofubyggingum – og endurskilgreina hvar mörk mannlegrar athafna-
gleði skuli liggja. Aðgerðasinnar reyna að auki að tryggja áframhaldandi
tilvist þessara marka með því að sannfæra þá sem völdin hafa, þrýsta á,
jafnvel neyða þá til ‚að sleppa‘ framkvæmdum sem myndu skaða umhverf-
1 Herman Melville, Bartleby the Scrivener, Hazleton: Pennsylvania State University
Electronic Classics Series, 2012, bls. 12: „I would prefer not to.“