Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Side 12
11
í hverju samfélagi eiga sér sálrænan og tilfinningalegan hljómgrunn hjá
fólkinu sjálfu.
Hinsegin fræði (e. queer studies) hafa jafnan fjallað um vandann sem
fylgir því að víkja frá ríkjandi viðmiðum, sem geta verið einstaklingnum
skaðleg, og leitina að öðrum og betri kostum. Í þau fræði verður sótt í
lokahluta greinarinnar þar sem tekist verður á við það að fræðileg grein-
ing á loftslagsvandanum og orsökum hans virðist ekki nægja til að brugðist
sé við honum. Umræðan um olíuleit á Drekasvæðinu verður skoðuð þar í
ljósi skrifa Eve Kosofsky Sedgwick um það hvað fræðin geti gert til að hafa
áhrif á heiminn. Að lokum er ráða leitað í bók J. Jack Halberstam, Hinsegin
listinni að mistakast, um það hvernig hægt væri að sameinast um ‚að mis-
takast‘ í gróðaleitinni á Drekasvæðinu og takast þá eitthvað allt annað og
mikilvægara.
Ævintýrið á Drekasvæðinu
Undanfarin ár hefur færst í aukana að umhverfissinnar biðli til ríkisstjórna
og stóriðjufyrirtækja um að hætta við gróðavænlegar framkvæmdir sem
myndu fela í sér verulegan útblástur gróðurhúsalofttegunda. Þessar kröfur
um „aðgerðaleysi“ eru viðbragð við því að hnattræn hlýnun verður sífellt
brýnna vandamál, en á sama tíma og fólk er farið að viðurkenna tilvist og
alvarleika loftslagsvandans hefur ástandið því miður versnað. Eins og kom
fram í fimmtu IPCC skýrslunni, sem kom út haustið 2014, náði útblástur
gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum sögulegum hæðum á tímabilinu
2000 til 2010, efnahagskreppa áranna 2007 og 2008 dró aðeins tímabund-
ið úr losuninni.3 Og það er ekki nóg með að ástandið sé verra nú en áður,
því tíminn sem við höfum til að bregðast við vandanum er að renna út.
Naomi Klein bendir á í nýlegri bók sinni Þetta breytir öllu, að það hversu
lengi við höfum tafið hafi orðið til þess að „Alþjóðlega orkustofnunin
hefur varað við því að ef við náum ekki stjórn á útblæstri fyrir árið 2017,
sem nálgast óðfluga, muni jarðefnaeldsneytishagkerfi okkar ‚festa í sessi‘
afar hættulega hlýnun.“4
3 R.K. Pachauri og L.A. Meyer (ritstj.), Climate Change 2014. Synthesis Report.
Contribution of Working Groups I, II and III to the Fifth Assessment Report of the Int-
ergovernmental Panel on Climate Change, Genf: IPCC, 2014, bls. 45.
4 Naomi Klein, This Changes Everything. Capitalism vs. The Climate, New York: Simon
& Schuster, 2014, bls. 23.
‚AÐ KJÓSA AÐ SLEPPA ÞVÍ‘