Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Síða 18
17
‚AÐ KJÓSA AÐ SLEPPA ÞVÍ‘
gera það sem virðist allt að því óhjákvæmilegt er síður en svo einfalt mál.
Þar að auki er það eina sem er sameiginlegt með málflutningi þeirra sem
fjallað hefur verið um í þessum kafla óskin um að numið sé staðar. Gildi
þess að nema staðar – að gera ekki eitthvað – án þess að uppi sé krafa um
að eitthvað sérstakt verði gert í staðinn, liggur hins vegar ekki endilega í
augum uppi. Til að varpa ljósi á mikilvægi aðgerðaleysisins verður sjónum
nú beint að vangaveltum um möguleika, getu og aðgerðaleysi í verkum
heimspekingsins Giorgio Agamben um megundina.19
Af gildi þess að ‚sleppa því‘
Þótt umhverfismál séu ekki tekin til umræðu í ritgerð Agamben „Um
megundina“ er útgangspunktur hennar það samhengi alþjóðakapítalisma
og eyðileggingarmáttar mannanna á hnattrænum skala sem rætt hefur
verið hér að ofan. Agamben byrjar á því að benda á að hugtakið megund
eigi sér ekki aðeins langa sögu í vestrænni heimspeki, þar sem það hefur
verið miðlægt síðan Aristóteles fjallaði um það í Um sálina; það hafi aldrei
hætt að skipta máli í „lífi og sögu mannkyns, fyrst og fremst þess hluta
mannkyns sem hefur vaxið og þróað getu (ít. potenza) sína upp að því marki
að það hefur þröngvað yfirráðum sínum upp á plánetuna alla.“20 Það er
því hæfileiki manneskjunnar til að laga umhverfið að þörfum sínum, með
afleiðingum sem eru gjarnan ófyrirséðar og afdrifaríkar, sem veldur því að
hugtakið er ekki síður mikilvægt í dag en í Grikklandi hinu forna. Þessi
hæfileiki er í eðli sínu hvorki neikvæður né jákvæður, en hefur haft í för
með sér jafn yfirgripsmikil afrek og þróun tækni og vísinda, sem og mótun
alþjóðasamfélags og heimsmarkaðar.
Megund er margslungið fyrirbæri, því þótt hún sé stöðugt til staðar,
þá birtist hún aðeins við ákveðnar aðstæður og í athöfnum, eins og ljóst er
19 Hugtakið δύναμις (e. potentiality, l. potentia) vísar til getu og valds, auk mögu-
leikanna sem felast í hvoru tveggja. Með það að markmiði að halda öllum þessum
merkingaraukum til haga ákvað ég nota þýðingu Sigurjóns Björnssonar á þessu
hugtaki Aristótelesar í Um sálina, fremur en þýðingu Svavars Hrafns Svavarssonar,
sem kýs einfaldlega að tala um „möguleika“ í þýðingu sinni á Frumspekinni, orð sem
hefur þann kost að vera þjálla og kunnuglegra. Hins vegar vekur orðið „megund“
upp hugrenningatengsl við lýsingarorðið „megnugur“ sem felur í sér getu, mátt
og það að vera fær eða mögulegur.
20 Giorgio Agamben, „On Potentiality“, Potentialities. Collected Essays in Philosophy,
ritstjóri, þýðandi og höfundur inngangs Daniel Heller-Roazen, Stanford, Calif-
ornia: Stanford University Press, 1999, bls. 177–184, hér bls. 177.