Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Side 19
18
af þeim dæmum sem notuð eru til að skýra virkni hennar í tveimur text-
um Agamben, „Bartleby, eða um ófyrirsjáanleika“ og „Um megundina“.
Helsta dæmið sem hann styðst við í þeim fyrrnefnda dregur sérstaklega
fram mikilvægi athafna; þar notar hann vaxskrifbretti sem notuð voru í
fornöld til að skýra hvernig hugurinn er „vera hreinnar megundar“: „líkt
og þegar fjaðurstafur skrifarans ristir viðkvæmt vaxlagið skyndilega, gerir
megund hugsunarinnar, sem er í sjálfri sér ekkert, virkni vitsmunanna
mögulega.“21 Dæmið sem Agamben notar í „Um megundina“ eru skiln-
ingarvitin, sem við verðum aðeins meðvituð um við áreiti eða þegar við
erum svipt þeim. Skilningarvit á borð við sjón og mál tilheyra „sviði meg-
undar“ – líkt og hugurinn eru þau í sjálfu sér ekkert – en það einkenni á
getu okkar sýnir að „megund er ekki einungis eitthvað sem ekki er (e. non-
being), hreinn skortur, heldur er hún tilvist þess sem er ekki, hún er til marks
um það sem er fjarverandi.“22
Hugtakið impotentiality þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi draga fram
það lykileinkenni megundar að hún nær ekki einungis yfir „möguleikann
á því að gera hitt eða þetta heldur einnig möguleikann á því að gera ekki,
möguleikann sem ekki verður að veruleika.“23 Frelsið í „hyldýpi megund-
arinnar“ grundvallast á þessari óvirkni: „Að vera frjáls er ekki aðeins að
hafa það á sínu valdi að gera hitt eða þetta, né er það einfaldlega það að
hafa vald til að neita að gera hitt eða þetta“ – það er að vera fær um að gera
ekki það sem maður getur gert; að vera meðvituð um eigin getu án þess að
beita henni, að sjá möguleika sem ekki eru nýttir og láta þar við sitja.24
Munurinn á því að neita því að gera eitthvað og að sleppa því að gera
eitthvað kann að virðast of lítill til að það taki því að benda á hann, en gildi
þess að gera þennan greinarmun verður skýrt í samhengi við olíuleitina
á Drekasvæðinu. Olíuleit (og möguleg olíuvinnsla), sem gengur þvert á
vísindalega þekkingu um loftslagsbreytingar, er pólitísk aðgerð sem ráðist
er í með skammtímagróðasjónarmið að leiðarljósi. Það að rísa upp gegn
ríkjandi öflum og neita því að samþykkja aðgerðirnar, neita því að lúta
lögmálum kapítalismans, væri að sama skapi pólitísk aðgerð sem gerði þá
kröfu til uppreisnarseggjanna að þeir ættu sér sameiginleg pólitísk mark-
21 Giorgio Agamben, „Bartleby, or On Contingency“, Potentialities. Collected Essays
in Philosophy, Stanford, California: Stanford University Press, 1999, bls. 243–271,
hér bls. 245.
22 Giorgio Agamben, „On Potentiality“, bls. 179.
23 Giorgio Agamben, „On Potentiality“, bls. 179–180, skáletrun mín.
24 Giorgio Agamben, „On Potentiality“, bls. 183.
GUÐRúN ELSA BRAGADÓTTIR