Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Síða 21
20
fremst á fólk sem óvirka neytendur einkennir nútímalýðræðissamfélög.28
Colebrook bendir þó á að á sama tíma og „það er engin trygging fyrir því
að við verðum manneskjur“ í þeim skilningi að við séum nógu meðvituð
til að nema staðar þegar þess er þörf, þá sé auðvitað „mannlegt að gleyma
sér.“29
Þótt áhersla sé lögð á mikilvægi aðgerðaleysis í þessari grein – á að
möguleikanum á því að ‚sleppa því‘ sé gefið meira vægi í samfélagi sem
stöðugt krefst framleiðni og mælanlegra afkasta – þá er það fyrst og fremst
með það fyrir augum að eitthvað annað geti þá gerst. Í „Bartleby, eða um
ófyrirsjáanleika“ bendir Agamben á rýmið sem verður til vegna aðgerða-
leysis ritarans; það er þegar við verðum meðvituð um möguleikann á því
að gera ekki það sem við vel getum sem „við verðum í raun og veru fær
um sköpun, sem við verðum í raun og veru skáld.“30 Að þessu leyti verður
Bartleby, „ritarinn sem hætti að skrifa, að sláandi birtingarmynd Tómsins
sem elur af sér alla sköpun“.31 Undir lok greinar sinnar ræðir Agamben þá
algengu túlkun á Bartleby að hann sé kristsgervingur „sem kemur til að
afnema gömul lög og innleiða nýja skipan“ og bendir á þann mun á Jesú
og Bartleby að sá fyrrnefndi kom til að endurheimta það sem var áður, en
hinn síðarnefndi til að „bjarga því sem ekki var.“32 Bartleby getur hjálpað
okkur að hugsa eða tala um það sem getur gerst þegar numið er staðar, án
þess þó að upp vakni þrá eftir einhvers konar fortíðarparadís sem hefur
glatast. Það að við séum í vanda stödd núna þýðir ekki að allt hafi verið
gott áður fyrr.
Hverjum þeim sem hefur kynnt sér loftslagsvandann er hins vegar ljóst
að áhrifin sem ein þjóð, hvað þá ein manneskja, getur haft til að draga veru-
lega úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda eru takmörkuð. Ewa Płonowska
Ziarek hefur gagnrýnt Agamben fyrir að einblína um of á einstakling-
inn í skrifum sínum um megund en gleyma að taka tillit til þess „hvernig
geta manneskjunnar vex, breytist og skerðist mögulega vegna getu/van-
máttar annarra“.33 Ziarek hefur sömuleiðis lagt til að lausna sé leitað í
skrifum eins helsta áhrifavalds Agamben, Hönnuh Arendt. Sá skilningur
28 Claire Colebrook, „Introduction“, bls. 12–13.
29 Claire Colebrook, „Introduction“, bls. 13.
30 Giorgio Agamben, „Bartleby, or On Contingency“, bls. 253.
31 Giorgio Agamben, „Bartleby, or On Contingency“, bls. 253.
32 Giorgio Agamben, „Bartleby, or On Contingency“, bls. 270.
33 Ewa Płonowska Ziarek, „Feminine ‘I can’: On Possibility and Praxis in Agamben’s
Work“, Theory & Event, 1/2010.
GUÐRúN ELSA BRAGADÓTTIR