Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Síða 24
23
‚AÐ KJÓSA AÐ SLEPPA ÞVÍ‘
Í samfélagi þar sem orkusóun er til marks um auð og velgengni
getur verið erfitt fyrir almenning að horfast í augu við sérhverj-
ar þær kringumstæður sem ógnað geta neyslunni. Í slíku umhverfi
vekja kröfur um hófsemi upp tilfinningu um vanefni, en […] alls
kyns áfellisdómar [fylgja] hugmyndum um niðurskurð eða ‚fátækt-
arbrag‘ í kapítalískum ríkjum.42
Gildin sem hér um ræðir móta bæði hægri- og vinstrisinnaða kjósend-
ur, eins og sést glöggt á því að möguleikinn á því að ‚sleppa‘ olíuleit á
Drekasvæðinu var of fráleitur til að vera ræddur af alvöru meðal íslenskra
stjórnmálaflokka, að minnsta kosti þar til tveimur árum eftir að ákvörðun
um hana var tekin. Guðni bendir í grein sinni á að hagvaxtarkrafan geri
„allar stjórnvaldsaðgerðir pólitískt óraunhæfar sem í alvöru miða að rót-
tækri takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda“ vegna þess efnahagssam-
dráttar sem nánast ábyggilegt er að fyrirbyggjandi aðgerðir leiði til.43 Það
sem gerir íslenska olíuleitarævintýrið (og grein Guðna) ógnvekjandi er að
hér er ekki einungis um skort á fyrirbyggjandi aðgerðum að ræða, þvert á
móti er verið að leggja grunn að iðnaði sem við ættum að vera að draga
úr, ef við værum á annað borð komin almennilega af stað. Íslenskur efna-
hagur hefur hingað til ekki treyst á vinnslu jarðefnaeldsneytis. Hér nægði
gróðavon, draumur um velmegun þjóðar sem skarar framúr á heimsmörk-
uðum, eða einfaldlega ósk um að hægt væri að tryggja að við og afkom-
endur okkar hefðum það gott í óvissri framtíð.
Þegar allt kemur til alls gerir grein Guðna meira en draga upp truflandi
mynd af ástandi þar sem vísindi mega sín lítils frammi fyrir áhrifamætti
þeirra hugmynda sem samfélag hefur um velgengni. Grimm örlög hennar
eru að verða hluti af myndinni sem hún bregður upp, að staðfesta réttmæti
greiningarinnar sem höfundur hennar setur fram þegar hún rennur skap-
ara sínum úr greipum og öðlast sjálfstæða tilveru. Í framhaldslífinu heldur
hún áfram að skapa merkingu og varpa ljósi á viðfangsefni sitt, meðal ann-
ars með viðtökunum sem hún hlýtur.
„Vekjum ekki sofandi dreka“ tekur til samspils margra ólíkra þátta –
s.s. vísinda, stjórnmála, efnahagsumhverfis og samfélagsgilda – í yfirgrips-
mikilli greiningu á félagslega samhenginu sem mótar afstöðu Íslendinga
til olíuleitarinnar á Drekasvæðinu, sem enn var aðeins á umræðustiginu
42 Guðni Elísson, „Vekjum ekki sofandi dreka“, bls. 12–13.
43 Guðni Elísson, „Vekjum ekki sofandi dreka“, bls. 14.