Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Qupperneq 57
56
vöruhönnunar og vald einstaklinga til þess að leggja loftslaginu lið með
vörukaupum er undirstrikað á kostnað hugmyndarinnar um að ríkisvaldið,
eða löggjafinn, geti hamið vandann. IDEO vill frekar „[opna] inn á nýja
möguleika með því að skoða mannlegar þarfir og hliðr[a] umræðunni frá
því sem við þurfum að segja skilið við [þ.e. neyslu] og einbeit[a] okkur í stað-
inn að því sem við getum skapað.“52 Enn fremur er sagt að umræðurnar
á vefsíðunni sem IDEO kynnir í myndskeiði sínu skuli vera lausar við
„pólitískan ásetning“.53
Að lokum má benda á hvernig sú jákvæðni sem einkennir lausnarfrá-
sögnina hlutgerist sem þáttur í auglýsingum þessara tveggja fyrirtækja.
Röddin í Chevrolet-myndskeiðinu treystir sér til að segja undir lok aug-
lýsingarinnar að „í dag, á morgun og áfram, til móts við betri framtíð,
getum við með stolti sagt: Chevy stendur sterkt.“54 Að leyfa sér að full-
yrða um betri framtíð þegar vísindaleg þekking manna á loftslagsbreyt-
ingum bendir til skaða af völdum þeirra í þúsundir ára er illa réttlætanlegt
frá siðferðilegum sjónarhóli, sérstaklega með tilliti til þess að verið er að
auglýsa og hvetja til kaupa á vöru sem stuðlar að losun koltvísýrings. Slíkar
staðhæfingar geta jafnframt latt fólk til þess að bregðast við loftslagsbreyt-
ingum, rétt eins og þunglyndislegar heimsendaskotnar birtingarmyndir
loftslagsumræðunnar, á hinum enda hennar, en þeim er lausnarfrásögninni
bersýnilega ætlað að svara.55 Enn skýrari áherslu á mikilvægi jákvæðni má
finna í orðum framkvæmdastjóra IDEO í fyrrnefndu myndskeiði, þegar
hann talar um að „kanna mögulegar lausnir á jákvæðan og raunsæisleg-
an máta“ og lofar að vefsíðan LivingClimateChange.com verði laus við
„dómsdagsspár og depurð“.56
52 „By starting with the human experience we begin to point towards new possibilities
and move the conversation away from what we have to give up and toward what
we will create.“ IDEO, „Our invitation to you“.
53 „[…] political agenda“. Sama heimild.
54 „It’s why today, tomorrow and on into a better future, we can proudly say: Chevy
Runs Deep.“ Goodby, Silverstein & Partners, „Chevrolet Spaceship Earth“.
55 Guðni Elísson hefur fjallað um birtingarmyndir heimsendaskotinnar orðræðu um
loftslagsmál, sem hann kallar hrakspárorðræðu, í greininni „Þið munuð öll deyja
– lita dómsdagsspár hugmyndir manna um loftslagsvísindi“, Lesbók Morgunblaðs-
ins, 81. árg., 19. apríl 2008, bls. 8–9. Greinin birtist síðar í Rekferðir. Íslensk menn-
ing í upphafi nýrrar aldar, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Háskólaútgáfan:
Reykjavík, 2011, bls. 298–309 og 338–341. Guðni ræðir einnig hugmyndir um
áhrif slíkrar orðræðu í greininni „Nú er úti veður vont …“.
56 „[…] by exploring possible solutions, in an optimistic and real world way“; „No
doom and gloom.“ IDEO, „Our invitation to you“.
MaGnúS ÖRn SiGuRðSSon