Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Page 59
58
Lausnarfrásögnina, eða „Höldum áfram okkar daglega amstri“, eins og
Žižek myndi endurorða hana, má hins vegar einnig finna í orðræðu stofn-
ana sem ættu ekki að hafa neinn beinan hag af því að lýsa loftslagsbreyt-
ingum sem leysanlegu vandamáli. Slík misvísandi frásögn um loftslags-
breytingar er framleidd af stofnunum sem hafa jafnvel það eina markmið
að berjast fyrir minni losun gróðurhúsalofttegunda en það gefur sterka
vísbendingu um hversu fyrirferðarmikil frásögnin er orðin í samtíman-
um. Þetta kemur einnig til með að vera mikilvæg niðurstaða fyrir síðustu
hugleiðingu þessarar greinar um lausnarfrásögnina sem birtingarmynd
nýfrjálshyggju fremur en skref í átt frá henni.
Myndskeið um loftslagsbreytingar sem framleidd eru af sjálfseign-
arstofnunum koma helst frá umhverfisverndarhreyfingum og birta alla
jafna nákvæmari og réttari mynd af loftslagsbreytingum en þau myndskeið
sem framleidd eru af fyrirtækjum eða stjórnmálahreyfingum. Nærtækast
er að skýra notkun lausnarfrásagna í þessum myndskeiðum sem hvatningu
til þátttöku í aðgerðum eða verkefnum hreyfingarinnar. Áhorfandanum er
boðið að vera lausnin á vandanum eða ávísun að betri framtíð. Myndskeið
sjálfseignarstofnunarinnar The Climate Reality Project sem greind eru í
þessum hluta, bera þessu vitni, en þau eru einnig góð dæmi um hvernig
lausnamiðaðar neyslu- og tæknifrásagnir hafa fest sig í sessi innan orðræðu
stórra og áhrifamikilla umhverfisverndarhreyfinga.
Lausnarfrásögnin gæti varla birst skýrar en í kallinu „Við getum leyst
þetta!“ (e. „We can solve it!“), aðalslagorði sjálfseignarstofnunarinnar The
Alliance for Climate Protection, undanfara The Climate Reality Project
sem var stofnað árið 2013 með samruna fyrrnefnds félags og annarra bar-
áttuhreyfinga. Frásögninni er beint að stórum hópi fólks, bandarísku þjóð-
inni eða enskumælandi einstaklingum með internet-tengingu. Hún öðlast
merkingu í tengslum við stórsöguna um framþróun mannsins en á ögn
breiðari grundvelli en í myndskeiðum stjórnmálaflokkanna og fyrirtækj-
anna. Stórsögunni má skipta í tvo meginþræði með skrif Jean-François
Lyotards um efnið að leiðarljósi.58 Lyotard nefnir annars vegar þá hug-
mynd að þekking mannsins sé sífellt að aukast og er það sú hlið stórsög-
unnar sem tæknimiðuð lausnarfrásögn viðskipta og stjórnmála hallast að.
treating global warming as a simple fact, as just another part of ‘carrying on as
usual’.“ Slavoj Žižek, Living in the End Times, London og New York: Verso, 2010,
bls. 329.
58 Jean-François Lyotard, Hið póstmóderníska ástand, sjá t.d. bls. 83–84.
MaGnúS ÖRn SiGuRðSSon