Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Síða 61
60
með alþjóðlegri skírskotunum. „Leiðin fram á við“60 er ríflega fimm mín-
útna langt myndskeið með fagmannlega kvikmynduðum myndbrotum og
teiknuðum hreyfimyndum. Myndskeiðinu má skipta gróflega í tvennt, að
viðbættum einnar mínútu írónískum eftirmála. Tilfinningaþrungin píanó-
tónlist leiðir áhorfandann inn í fyrri hluta myndskeiðsins þar sem sögu-
legir atburðir, alþjóðlegar stórstjörnur og tákn um vestræna siðmenningu
þjóta hjá, uns myndir af stríðum og sorgaratburðum taka við sem leiða
inn í umfjöllun um alvarleika loftslagsbreytinga. Glaðvær en auðmjúk
strengjatónlist rammar inn síðari hluta myndskeiðsins sem hverfist um
lausnir við loftslagsvandanum og endar í írónískri samblöndu af friðsælum
landslagsmyndum og öfgafullum veðuratburðum undir seiðandi ástarsöng
úr gamalli Disneymynd. „Raunverulega loftslagsáheitið“61 er um mín-
útu langt myndskeið frá The Climate Reality Project þar sem teiknaðar
hreyfimyndir umbreytast á ógnarhraða úr orðum í setningar í myndir.
Brugðið er á leik með hringformið sem er látið tákna ýmislegt: fólk, hátal-
ara og jörðina sjálfa. Í síðarnefnda myndskeiðinu er loftslagsumræðunni
stillt upp sem skarpri viðureign þeirra sem vilja leysa vandann og þeirra
sem ekki vilja það og viðtakanda er þar boðið tækifæri til þess að verða
hluti af gagnfrásögn (e. counter narrative) í andstöðu við málflutning hags-
munaafla kolefnisfreks iðnaðar.
Þú hefur rödd. Þú gætir notað hana til að öskra. Kalla. Æpa. Hvísla.
Þeir hafa rödd. Þeir geta beitt áróðri. Blekkt. Jafnvel falið sannleik-
ann. Þeir segja að ekki sé hægt að leysa loftslagsbreytingar. Ætlar þú
að þegja?62
Myndskeiðið snýst um umræðuna sjálfa en birtir hana á nokkuð misvísandi
hátt. Áhersla er lögð á að vandinn felist í því að ákveðin öfl haldi því fram
að ekki sé hægt að leysa hann, þegar raunin er sú, eins og greiningin hér
á undan sýnir, að það eru mun frekar misráðnar lausnarfrásagnir sem ráða
60 The Climate Reality Project, „The Way Forward“, YouTube.com, útgefið á
vef 22. október 2013, sótt síðast 30. janúar 2016 af https://www.youtube.com/
watch?v=G7tntAdhJUY.
61 The Climate Reality Project, „The Climate Reality Pledge“, YouTube.com, útgefið
á vef 14. nóvember 2012, sótt síðast 30. janúar 2016 af https://www.youtube.com/
watch?v=UzlqGnPMm3U.
62 „You’ve got a voice. You could scream with it. Shout. Yell. Whisper. They’ve got
a voice. They can propagate. Misinform. Even hide the truth. They say climate
change can’t be solved. Will you be silent?“ Sama heimild.
MaGnúS ÖRn SiGuRðSSon