Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Side 65
64
umhverfisvænni vörum. Í nýlegri athugasemd Kevin Andersons, prófess-
ors í orku- og loftslagsmálum við Manchester-háskóla, í hinu virta fræði-
riti Nature Geoscience, segir hann að til þess að halda hlýnun jarðar undir
tveggja gráðu markinu sem þjóðir heims hafa sett sér, verði samdráttur í
losun að aukast jafnt og þétt svo hann verði um 10% á ári árið 2025 og
hann verði að haldast svo til ársins 2050 en þá ætti koltvísýringi að vera
nær úthýst úr orkukerfum heimsins.66 Hann segir slíka áætlun fara illa
saman við orð manna um að hagvöxtur á heimsvísu þurfi ekki að breytast
mikið samhliða samdráttaraðgerðunum. Til þess að ná settum markmiðum
og gera tilraun til þess að takmarka skaðann gagnvart komandi kynslóðum
merkjanlega og þeim jarðarbúum sem stafar sérstök ógn af loftslagsbreyt-
ingum, er líklegt að lífsgæði skilgreind út frá hagvexti myndu minnka.
Þetta yrði ekki endir alls. Þverþjóðlegar rannsóknir á sambandi lífs-
hamingju og vergrar þjóðarframleiðslu á mann benda til þess að samspil
þjóðarframleiðslu og lífshamingju minnki því hærra sem hlutfall þjóð-
arframleiðslunnar er, eða með öðrum orðum að fátækt hafi mikil áhrif á
lífshamingju á meðan munurinn á hamingju ríkrar þjóðar og mjög ríkrar
þjóðar sé takmarkaður.67 Í þessu samhengi mætti álykta að skerðing hag-
vaxtar í ríkustu löndum heims þurfi ekki að jafngilda mikilli lífsgæðaskerð-
ingu.
Meðan stofnanir leggja áherslu á lausnarfrásagnir sem forðast að horf-
ast í augu við þann mikla samdrátt í losun koltvísýrings sem þarf að eiga
sér stað, er verið að draga upp misvísandi mynd af loftslagsbreytingum.
Í síðasta hluta þessarar greinar verður leitast við að tengja þessa fyrirferð-
armiklu lausnarfrásögn um loftslagsbreytingar nýfrjálshyggju.
Nýfrjálshyggja og loftslagsbreytingar
Merkja má tilfærslu í umræðu undanfarinna ára um loftslagsbreytingar, frá
afneitun til viðurkenningar á vandanum með áherslu á mögulegar lausnir.
Framleiðsla og viðhald afneitunarfrásagnarinnar hafa verið rakin til orð-
ræðu fyrirtækja sem hafa hag af kolefnisfrekri starfsemi og í víðara sam-
hengi hefur loftslagsafneitun verið sögð afkvæmi nýfrjálshyggju eða a.m.k.
66 Kevin Anderson, „Duality in Climate Science“, Nature Geoscience 8/2015, bls.
898–900.
67 Richard A. Easterlin og aðrir, „The Happiness-Income Paradox Revisited“, PNAS
107/52, 2010, bls. 22463–22468.
MaGnúS ÖRn SiGuRðSSon