Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Page 68
67
rökvísi nýfrjálshyggju í lausnarfrásögninni sem slíka almenna stjórnvisku,
í formi mögulegra aðgerða ríkis, fyrirtækja og einstaklinga til þess að leysa
loftslagsvandann.
Hnattvæðingu nýfrjálshyggju og getu hennar til þess að hafa áhrif á
innviði samfélaga má einnig skoða út frá hugmyndum þess efnis að hún
búi yfir þeim hæfileika að geta tileinkað sér orðfæri annarra hugmynda-
fræða í þeim tilgangi að dulbúa raunverulega virkni sína.76 Í fræðilegri
orðræðu sem skilur hugmyndafræði einungis sem tilbúna framsetningu
samfélagsins og hugmynda þess, en ekki sem raunverulega efnisgerð þess
eða virkni, hefur því verið haldið fram að vegna þessa yfirskins-eiginleika
geti „nýfrjálshyggja orðið ráðandi stjórnviska án þess að vera ráðandi hug-
myndafræði“77 og að þannig „sé henni betur lýst sem „menningarlegu
forræði“ (e. cultural hegemony).78 Skilningur á þessum eiginleika er mikil-
vægur til þess að koma auga á efnislega birtingarmynd nýfrjálshyggju í
lausnarfrásögninni.
Myndskeið McCain-kosningaherferðarinnar og Chevrolet-auglýsingin
eru afbragðs dæmi um hvernig nýfrjálshyggja nýtir sér eða hefur áhrif á
lausnarfrásögnina. Í kosningaauglýsingunni eru skattar og reglusetning af
hálfu ríkisins afskrifuð sem viðbrögð við loftslagsvandanum og markaður-
inn settur í forgrunn þar sem loftslagsbreytingar birtast í samhengi hækk-
andi matvæla- og eldsneytisverðs. Chevrolet-auglýsingin leggur einnig
áherslu á virkni markaðarins frammi fyrir loftslagsbreytingum með því
að setja fram lausn sem byggist á því að kaupa rétta tegund bíls. Af þeim
myndskeiðum sem greind voru hér á undan er augljósustu tengslin við
nýfrjálshyggju að finna í þessum tveimur myndskeiðum en þó má greina
hugmyndafræðina í þeim öllum.
Í samhengi lausnarfrásagnarinnar eru frásagnarþræðir tækni og neyslu
skýrustu birtingarmyndir nýfrjálshyggjunnar en þeir vísa til markaðs-
miðaðra lausna við loftslagsvandanum: stjórnmálamenn eiga að stuðla að
því að einkafyrirtæki þrói tækni sem getur síðan bætt neyslu almennings
2015, og þar bendir hún raunar á þann möguleika að óháð félagasamtök og aðrar
stofnanir sem sjá sig í andstöðu við efnahagsstefnu nýfrjálshyggju stýrist samt sem
áður af rökvísi nýfrjálshyggjunnar (bls. 202) rétt eins og greiningin á sjálfseign-
arstofnunum hér á undan leiddi í ljós.
76 Wendy Brown, „Neoliberalism …“, bls. 49.
77 Sama heimild, bls. 49.
78 Hugtak Antonio Gramsci er nátengt hugtakinu hugmyndafræði en leggur sérstaka
áherslu á dulið eðli valds sem „setur suma hluti í forgrunn en kemur öðrum úr
augsýn.“ Nick Couldry, Why Voice Matters, bls. 6.
„Ýttu á hnappinn • Bjargaðu hnettinum“