Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Side 85
84
Gullna reglan er siðferðileg undirstaða yfirlýsingarinnar og vísar til
kynslóða framtíðarinnar. Áhersla er lögð á að það sé skylda okkar sem nú
lifum, hvaða trú eða menningu sem við tilheyrum, að umgangast jörðina
réttlátlega. Okkur ber að koma fram við kynslóðir framtíðarinnar eins
og við viljum að aðrir komi fram við okkur! Jörðina skyldum við líta á
sem meðbróður og jafningja og einnig þá sem munu standa höllustum
fæti, ef hlýnun jarðar heldur áfram. Yfirlýsingin endar á kröftugu ákalli til
þjóðarleiðtoga heims þar sem tekið er undir með vísindasamfélaginu um
nauðsyn þess að stöðva hlýnun jarðar með öllum tiltækum ráðum. Ákallið
er rammað inn af réttlætis- og miskunnarhugsun og ítrekað að slík siðferð-
isgildi verði grundvöllur bindandi samninga á COP21. Réttlætishugsunin,
sem felur m.a. í sér að ríkustu iðnþjóðirnar axli þyngstu byrðarnar og sýni
þróunarríkjunum samstöðu, byggist á þemunum tveimur sem nefnd voru
hér að framan: miskunn og kærleika. Miskunnsemi og kærleikur eiga að
vera það siðferðilega leiðarljós sem vísi veginn til réttlætis. Að lokum heita
trúarsamfélögin því að axla sinn hluta ábyrgðarinnar: Að vekja almenning
til vitundar um háska loftslagsbreytinganna og boða fylgjendum sínum
breytta lifnaðarhætti sem miði að sjálfbærni og samfélagslegu og vistfræði-
legu réttlæti.
Svipuð nálgun er uppi á teningnum í yfirlýsingu Statement of Faith
and Spiritual Leaders frá 2014 sem kallast á við eldri yfirlýsingu frá 2009,
Climate, Faith and Hope. Faith Traditions together for a Common Future.40
Þeir sem standa að henni eru rúmlega þrjátíu fulltrúar trúarsamtaka sem
njóta áheyrnarréttar á loftslagsráðstefnum Sameinuðu þjóðanna. Þessir
aðilar hittust á ráðstefnu árið 2009 í boði Alkirkjuráðsins og samtakanna
Religion for Peace þar sem lýst var yfir stuðningi við niðurstöður loftslags-
vísindanna varðandi væntanlegar afleiðingar hlýnunar jarðar af manna-
völdum.41 Samskonar ákall eftir samstöðu alls mannkyns má finna í báðum
yfirlýsingunum. Byrði fátækustu landanna í heiminum vegna loftslags-
breytinga er sögð ósanngjörn og sett fram krafa um vistréttlæti (e. eco-
40 Climate, Faith and Hope. Faith Traditions together for a Common Future, frá 21. sept-
ember 2014, sótt 4. desember 2015 af: http://interfaithclimate.org/the-statement.
Hér má vísa til eldri yfirlýsingar um sama efni frá árinu 2009, en það er svokölluð
Interfaith declaration 2009, http://www.interfaithdeclaration.org/index.html. Sótt
3. janúar 2016 af: http://www.interfaithdeclaration.org/.
41 Sjá nánari upplýsingar um friðarsamtökin Religion for Peace á vefsíðu samtakanna,
sótt 22. desember 2015 af: http://www.religionsforpeace.org/. Nánari upplýsingar
um Alkirkjuráðið má finna á vefsíðu samtakanna, sótt 21. desember 2015 á: https://
www.oikoumene.org/en/.
SÓLVEIG ANNA BÓASDÓTTIR