Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Page 95
94
loftslagsbreytingum. Vissulega gerir páfabréfið mikið úr synd og hroka
mannsins en synd mannsins felst samkvæmt Laudato si‘ ekki síst í að rjúfa
tengslin við jörðina og náttúruna og setja sig yfir hana. Eftir stendur þó
trú á skynsemi og samvisku mannsins sem skapaður er í mynd og líkingu
Guðs. Aðalatriði páfabréfsins snýst um boðun nýrra lífshátta sem einkenn-
ast skulu af auðmýkt, réttri umgengni við náttúruna og samdrætti í neyslu.
Breytingin sem þarf að eiga sér stað er ekki léttvæg, þvert á móti er hún
mikilsháttar og þarf jafnt að verða í huga sem verki. Fræðilegur rammi sem
páfi heldur sig við þegar hann fjallar um þetta er hin forna dygðasiðfræði
sem með áherslu sinni á ræktun og iðkun ákveðinna dygða beinir sjónum
að því hvað felist í því að vera góð manneskja. Dygðir og lestir mann-
eskjunnar eru þar í forgrunni. Lestirnir sem maðurinn þarf að afleggja
felast í áherslum heimsins á tækni- og vísindahyggju ásamt auðhyggju.
Dygðirnar felast í lotningu fyrir heilagleika sköpunarverksins. Páfi leggur
áherslu á sjálfbærni í stað efnahagslegs hagvaxtar og framþróunar og lítur
til farsældar og hagsmuna heildarinnar fremur en gróðavonar einkaaðila.
Náttúran fær gildi sitt vegna þess að Guð skapaði hana og má því á vissan
hátt tala um blandaða framsetningu á líf- og guðmiðlægri siðfræði þar sem
maðurinn er hluti af stærri heild sem er sköpunarverk Guðs.
Samstaða mannkyns og sameiginleg ábyrgð –
ákall kaþólskra biskupa
Þann 26. október 2015 sendu allir helstu yfirmenn kaþólsku kirkjunnar
á heimsvísu frá sér ákall til COP21 ráðstefnunnar í tíu liðum73 þar sem
þjóðarleiðtogar voru hvattir til að komast að sanngjörnu, lagalega bind-
andi samkomulagi sem megni að stemma stigu við áframhaldandi hlýn-
un jarðar. Ákallið, sem hefur sterka skírskotun til umburðarbréfs páfa,
Laudato si’, er þannig upp byggt að fyrst eru áréttuð guðfræðileg og sið-
fræðileg meginatriði, sem öll eiga sér hljómgrunn í umfjöllun Laudato si’.
Í sem stystu máli eru þetta: áskoranir og tækifæri mannkyns sem tengjast
loftslagsbreytingum, nauðsyn þess að taka tillit til hinna fátæku í nýjum
loftslagssamningi og loks mikilvægi hugdjarfra leiðtoga sem hafa kjark til
að breyta um stefnu.74 Næst koma atriðin tíu og í lokin er stutt bæn. Ég
73 Ákall yfirmanna kaþólsku kirkjunnar til COP21, 26. október 2015, sótt 17. des-
ember 2015 af: https://www.scribd.com/doc/287076328/World-bishops-appeal-
to-COP-21-negotiating-parties.
74 Í ákallinu er einnig vísað til tveggja ræðna sem páfi hélt um loftslagsbreytingar
SÓLVEIG ANNA BÓASDÓTTIR