Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Síða 137
136
leg, þá hef ég stuðst við skilgreiningu dýrafræðingsins Tim Birkhead: um
„sannleika-sem-stendur“, eða „truth-for-now“,3 til að ræða þann ramma
sem ólíkir dýrasagnahöfundar hafa stuðst við til að ná fram raunsæislegum
lýsingum á persónum sínum.
Innan raunsæislegra dýrasagna má skynja einlægar tilraunir höfunda til
að nálgast dýrið fyrst og fremst á forsendum þess, en ekki bara í gegnum
symbólskar eða allegórískar síur. Þessi undarlega samblanda af náttúruvís-
indum og sálfræðilegu ævintýri er áberandi í mörgum hinna vinsælu dýra-
sagna sem ritaðar voru seint á nítjándu öld og snemma á þeirri tuttugustu,
bæði hérlendis og að minnsta kosti í enskumælandi nágrannalöndum, en
England, Bandaríkin og Kanada áttu öll vinsæla höfunda á þessu tímabili.
Sögurnar má kalla „raunsæislegar“ í þeirri merkingu að þær gera viða-
mikla tilraun til að túlka innra líf annarra dýra í gegnum skáldleg skrif,
en á móti kemur að það er í eðli sínu ómögulegt að þekkja huglægan
veruleika (e. subjective reality) annarra tegunda – rétt eins og það er í eðli
sínu ómögulegt að þekkja huglægan veruleika annarrar manneskju, þótt
stökkið kunni að vera styttra þar á milli. Af þeirri ástæðu færi ég raunsæið
inn í gæsalappir, sem áminningu um þá óumflýjanlegu manngervingu sem
á sér alltaf stað þegar mennskur rithöfundur reynir að stökkva inn fyrir
húð og hár annarrar tegundar og túlka skynveruleika hennar í gegnum
tungumálið okkar. Þessar sögur eru ekki „raunsæislegar“ í þeim skilningi
að þær búi yfir óvéfengjanlegum sannleika um hvernig það er að vera
annað dýr. Þær snúast heldur um takmarkað raunsæi og hliðstæða fantasíu.
Þær eru æfingar í því að ímynda okkur hvernig upplifanir annarra dýra
kunni að vera – því einhvern veginn hljóta þær að vera. Þessar æfingar eru
ekki mótaðar af vísindalegri leit að sannindum eða ósannindum, heldur af
trúverðugu líkingamáli sem er beint til mennskra lesenda. Þetta gera sög-
urnar með því að blanda saman vísindalegum grunni, hófstilltri manngerv-
ingu og þróunarfræðilegum ályktunum um hvernig innra líf dýra kunni að
vera, í samanburði við innra líf manna, sem er í eðli sínu alltaf líkt og ólíkt.
Með öðrum orðum snúast „raunsæislegar“ dýrasögur frekar um hvernig
við viljum hugsa um innra líf annarra dýra, heimspekilega séð, heldur en
3 Nánari skilgreining Birkhead á hugtakinu er einfaldlega „það sem við trúum að
sé satt akkúrat núna, út frá þeim vísindalegu sönnunum sem bjóðast okkur þá
stundina“. Hugmyndin um „sannleika“ snýst því ekki um endanlegan sannleika,
heldur sjálfsgagnrýninn sannleika sem er meðvitaður um að hann hafi, geti og muni
breytast í ljósi nýrra gagna eða hugmynda. Tim Birkhead, Bird Sense: What It’s Like
to Be a Bird, New York: Walker and Company, 2012, bls. xvii.
GUNNAR THEODÓR EGGERTSSON