Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Page 149
148
á skilið að við sýnum honum tilfinningaleg viðbrögð. Kjarni sögunnar
er dapurlegur, með eða án manngervingar. Deila má um hvort sagan sé
tragedía, eins og Seton heldur fram, en að lesa og skilja hana sem tragedíu
er öflugt tól til að láta lesendur lifa sig inn í líf Lóbós á djúpan og persónu-
legan hátt, með því að gera reynsluheim okkar að túlkunarviðmiði fyrir
reynsluheim úlfsins.
Helsta framlag Setons er auðvitað að velja þessa tilteknu sögu og færa
hana í skáldlegt form, með því að gera dýrið að aðalpersónu og þunga-
miðju í verkinu, og það má ekki vanmeta. Þetta litla verk – að leyfa dýri
að vera í aðalhlutverki í sinni eigin sögu – er í raun þrælróttækt innan
almennrar bókmenntahefðar. Sú var raunin í tíð Setons og að miklu leyti
á það enn við, eins og komið verður að hér á eftir. En framlag Setons felst
líka í því hversu vel honum tókst að draga fram dramatískan strúktúr úr
atvikssögunni um Lóbó og nýta í stílfærða sögu sem nær að vekja áhuga
lesenda. Þar eð Setons bætir við eigin upplifun, skilningi sínum og skoðun
á úlfum og segir frá því hvernig líf Lóbós og Blöncu mörkuðu straumhvörf
í hans eigin lífi, gerir hann söguna í ofanálag bæði einlæga og persónulega
– og áhrifin af því smitast auðveldlega yfir á lesendur. Langvarandi vinsæld-
ir bókarinnar eru til marks um persónulegt samband sem höfundinum tekst
að skapa á milli lesenda og dýranna. Samkvæmt The Wolf That Changed
America átti sagan líklega stóran þátt í að breyta skynjun almennings á lífi
úlfa og þoka henni burt frá gömlum og fordómafullum staðalímyndum um
djöfla fortíðar og nær nútímalegri ímynd af úlfum sem flóknum, tilfinn-
ingaríkum hópdýrum. David Attenborough játar það beinlínis í upphafi
myndar að bók Setons sé ein hlýlegasta lestrarminning æsku sinnar og segir
hana hafa haft djúp og hvetjandi áhrif á áhuga hans á öðrum dýrum.30
Dýrasögur Setons og Roberts eru tilraunir til að segja frá dýrum á víð-
ari og hljómmeiri hátt en fyrr hafði verið gert og dýpka í leiðinni samband
manna og dýra. Þær eru bersýnilega skrifaðar undir darwinískum áhrifum
og á tímum blússandi borgarmyndunar þegar dýr og menn færast fjær
hvert öðru. Roberts er sérstaklega gagnrýninn á hlutverk kristinnar trúar
í sambandi mannfólks við dýrin. Hann færir rök fyrir því í „The Animal
Story“ að trúarbrögðin hafi ekki eflt nánari skilning á milli tegunda, heldur
ýtt þeim æ lengra hverri frá annarri. Kristileg tvíhyggja greindi ekki bara á
30 Attenborough rifjar upp: „Þegar ég var tíu ára drengur var mér gefið eintak af Wild
Animals I Have known eftir Ernest Thompson Seton sem hafði gríðarleg áhrif á mig.
Bókin sýnir hugrekki, óttaleysi og tryggð úlfa á áhrifaríkan hátt og ég hef aldrei
gleymt henni“. The Wolf That Changed America.
GUNNAR THEODÓR EGGERTSSON