Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Blaðsíða 153
152
þar). Fimmti flokkurinn nefnir dýr sem „hluta af sviðssetningu“ og þar er
Paradísarmissir (e. Paradise Lost, 1667) eftir Milton tekinn sem dæmi, ásamt
Paul et Virginie (1788) eftir Bernadin de Saint-Pierre. Í þessum verkum eru
dýrin sett fram á raunsæislegan máta, en eru þó til skrauts í bakgrunninum
andspænis mennskri sögu í forgrunni. Þegar í hlut eiga dýr sem eru óhefð-
bundin og fylgja ekki stöðluðum dýrahlutverkum minnast Ingrid og Horst
S. Daemmrich á verk Thomas Mann, E.T.A. Hoffmann, Mikael Bulgakov
og Franz Kafka. Þau ræða verkin þó hvorki sérstaklega, né heldur útskýra
eða útlista nokkuð um þessi undarlegu dýrahlutverk, en áhugavert er að þau
minnist á Kafka, því dýrasögur hans eru sérstaklega áhugaverðar með hlið-
sjón af hefðbundnum bókmenntafræðilegum lestri á dýrum.
Meðal bókmenntafræðinga ríkir sterk tilhneiging til að lesa dýr sem
eitthvað annað en sjálf sig. Það virðist nánast sjálfkrafa viðbragð að grípa til
líkingamáls og myndhverfinga þegar dýr skjóta upp kollinum í bókmennt-
um og í þessu samhengi hefur bókmenntafræðingurinn Naama Harel sér-
staklega skoðað dýrasögur Kafka. Í grein hennar, „De-allegorizing Kafka’s
Ape: Two Animalistic Contexts“, fjallar Harel um endurtekna notkun höf-
undarins á dýrum, sérstaklega sem aðalpersónum, í verkum sínum. Hún
vísar til ævisögulegra heimilda úr einkalífi Kafka til að færa rök fyrir því að
höfundurinn hafi sýnt því sérstakan áhuga að rannsaka bæði hið mennska
og hið dýrslega ástand, velta upp sjónarmiði ólíkra tegunda og kynnast
grundvallarlöngunum annarra dýra. Sjálfur var Kafka grænmetisæta, að því
er virðist af siðferðislegum ástæðum og allir sem leggjast í lestur á dagbók-
um hans og bréfaskrifum, sem og ævisögum um skáldið, sjá fljótt sérstakan
áhuga rithöfundarins á málefnum dýra.44 Harel leggur áherslu á þá ríkjandi
skoðun að enginn einfaldur allegórískur lykill sé að verkum Kafka og að
sterk hefð sé í bókmenntafræði fyrir and-allegórískum lestri á skáldskap
hans.45 Engu að síður hafa dýrasögur Kafka iðulega verið túlkaðar sem alle-
góríur og flestir fræðimenn vanrækja þennan dýrslega hluta verka hans með
því að ræða um dýrin sem annars flokks efni en mannmiðjuna fyrsta flokks.
Harel einbeitir sér að nánum lestri á smásögu Kafka, „A Report to an
Academy“, þar sem apanum Rauðapétri er rænt frá Afríku og hann færður
til Evrópu. Hún færir söguna í sagnfræðilegt og vísindalegt samhengi til
44 Naama Harel, „De-allegorizing Kafka’s Ape: Two Animalistic Contexts“, Kafka’s
Creatures, Animals, Hybrids and Other Fantastic Beings, ritstjórar Marc Lucht og
Donna Yarri, Lanham, MD: Rowman and Littlefield Publishers, 2010, bls. 53–66,
bls. 53.
45 Naama Harel, „De-allegorizing Kafka’s Ape: Two Animalistic Contexts“, bls. 54.
GUNNAR THEODÓR EGGERTSSON