Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Side 159
158
og trúverðuga frásögn um takmörk hesthugarins sem reynir að vinna úr
minningunum til að fylgja löngunum sínum eftir, en týnist óhjákvæmilega
á leiðinni og deyr hryllilegum dauða í auðn og öræfum íslenska há lendisins.
Vissulega má lesa söguna á táknrænan hátt, en meginmerkingarsviðið er
svo sterkt innan frásagnarinnar að það yfirgnæfir táknræna sviðið og leggur
áberandi áherslu á samkennd með hryssunni og reynslu hennar. Í því sam-
hengi er einkar undarlegt að bókmenntafræðileg greining minnist ekki einu
orði á raunsæislega túlkun sögunnar, heldur skoði söguna einungis sem
sönnun þess að höfundurinn „hafi snúið baki við efnishyggju fyrri daga“.61
Raunsæislegur grunnur sögunnar er enn fremur útskýrður sérstaklega í
upphafi verksins, sem lýsir ferð Þorgils um hálendið þar sem hann rakst á
hestabein í miðjum óbyggðum. Hann gerði sér grein fyrir að beinin hlytu
að hafa komið frá villi- eða flóttahesti og tók undir eins að ímynda sér sög-
una á bak við beinin.62 Hvernig hefur líf hestsins verið? Hvað gæti hafa
fengið hestinn til að flýja burt og hvers kyns hugsanir leita á hest undir
svo nöturlegum kringumstæðum? Þetta eru réttmætar og afar áhugaverðar
vangaveltur til þess ætlaðar að nálgast innra líf og huglægt sjónarmið ann-
arrar tegundar. Sagan er merkileg tilraun til að draga fram hugarheim dýrs
á raunsæislegan og ljóðrænan máta.63 En ekkert slíkt kemur fram í Íslenskri
bókmenntasögu. Eftir að hafa játað að í dýrasögunum nái listfengi Þorgils
hámarki sínu nálgast Matthías Viðar Sæmundsson „Heimþrá“ og hryss-
una Stjörnu ekki á hennar eigin forsendum, sem „raunsæislega“ dýrasögu,
heldur færir greininguna í átt að hefðbundnum allegórískum lestri með því
að gera lítið úr merkingarsviði dýrsins. Sagan sogast þannig inn í mennska
sjálfhverfu og verður að neðanmálsgrein við aðrar sögur höfundarins frá
sama tímabili, sem eiga meiri greiningu skilið því þær fjalla um mannfólk.
Hápunkti íslenskrar dýrasagnalistar er þannig breytt í lítið púsl í umræðu
um eitthvað allt annað en sjálf dýrin, í samræmi við það sem almennt tíðk-
ast í umræðum um dýr í bókmenntum, hér á landi og erlendis.
61 Íslensk bókmenntasaga III, bls. 812.
62 Þorgils gjallandi, Dýrasögur 1, í Ritsafni III, ritstjóri Arnór Sigurjónsson, Reykjavík:
Helgafell, 1945, bls. 5–178, bls. 97.
63 Togstreitan á milli hins raunsæislega og ljóðræna er rædd nánar í síðustu köflum
doktorsritgerðarinnar, einkum hvað varðar tilkall til ólíkra sannleika – vísindalegs
sannleika og ljóðræns sannleika – og hugmyndina um að samband manna og dýra
kalli á meiri dulúð og ljóðrænu, til að sporna gegn hlutgervingu hinnar skaðlegu
mannmiðju. Þar geta dýrasögur leikið mikilvægt hlutverk, sem nokkurs konar
vegvísar í átt að öðruvísi hugsun um dýr en við erum vön í nútímasamfélagi.
GUNNAR THEODÓR EGGERTSSON