Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Page 169
168
máli og Færeyjar og Ísland voru sem lén undir stjórn beint frá
Kaupmannahöfn. Að vísu héldu alþingi á Íslandi og lögþingið í
Færeyjum nokkru sjálfstæði gagnvart stjórninni í Kaupmannahöfn,
en því olli einkum fjarlægðin og breytti í raun engu um ósjálf-
stæði þessara tveggja landa, þau voru ekkert annað en héruð undir
almennri lénsstjórn.3
Þann tíma sem Ísland var lén Danakonungs var landið ýmist svokallað
afgjaldslén, reikningslén eða þjónustulén.
Í afgjaldsléni fékk lénsmaður allar vissar tekjur, þ.e. landskuld á •
Bessastöðum, tíund, tolla af skipum sem leyfi höfðu til að sigla á
hafnirnar og afgjald af klaustra umboðum,4 sýslum og umboðsjörð-
um5 gegn föstu gjaldi. Lénsmaðurinn greiddi leigugjald sem tekið
var fram í veitingabréfinu, en gjaldið var 3.200 ríkisdalir nær allan
þann tíma sem landið var afgjaldslén. Lénsmaðurinn þurfti ekki að
halda reikning yfir þessar tekjur, en hann þurfti hins vegar að halda
reikning yfir óvissar tekjur, t.d. sakeyri sem hann fékk þriðjung af.
Árlega þurfti hann að standa skil á afgjaldinu til rentukammers þar
sem eftirlit var haft með reikningsfærslunni og reikningarnir endur-
skoðaðir.
Í reikningsléni var lénið veitt gegn föstum launum og árlega gerður •
reikningur yfir vissar tekjur og óvissar, samkvæmt veitingabréfinu,
og var reikningnum skilað í rentukammer til endurskoðunar.
3 Knud J.V. Jespersen, Danmarks historie 3. Tiden 1648–1730 , København: Gylden-
dal, 1989, bls. 39. (d. De gamle norske skattlande, Færøerne, Island og Grønland
var i sin tid fulgt med Norge ind i det danske statssystem; men forbindelsen til det
oprindelige moderland var for længst afbrudt. Grønland var på det nærmeste helt
forsvundet ud af synskredsen, og Færøerne og Island blev administreret som len
direkte fra København. Ganske vist opretholdt det islandske alting og det færøske
lagting en vis selvstændig myndighed i forhold til regeringen i København; men
det skyldtes snarest områdernes afsides beliggenhed og ændrede i praksis intet ved
de to områders uselvstændige status som provinser, underkastet den almindelige
lensforvaltning.)
4 Klaustrin voru lögð niður við siðaskiptin en héldust sem jarðaumboð vegna þeirra
jarða sem þeim höfðu tilheyrt og konungur leigði nú út til umboðsmanna gegn
ákveðnu gjaldi.
5 Umboðsjarðir eru jarðir í eigu konungs eða biskupsstóla yfirleitt nokkrar saman
sem ákveðinn aðili hafði umsjón með og innheimti tekjurnar. Dæmi um slíkt
umboð er Arnarstapi í Snæfellsnessýslu.
KRiSTjana KRiSTinSdóTTiR