Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Síða 184
183
stjórnað því hvaða reikninga hver rentuskrifari fór yfir. Sami rentuskrifari
virðist ekki hafa endurskoðað reikninga sama léns ár eftir ár.35
Til merkis um að endurskoðunin hefði farið fram var skrifað á reikn-
ingana, t.d: „rétt samlesið og reiknað af …“ (d. „rett conferrerit oc beregnet af
…“). Þessi fyrsta athugun á reikningunum var ekki mjög vandlega gerð því
við athugun á dönsku lénsreikningunum hefur komið fram að samlagn-
ingar- eða reikningsvillna er aldrei getið þó þær séu algengar. Á grundvelli
fyrstu athugunar rentumeistara á reikningum, kvittunum fyrir greiðslum
upp í afgjaldið og því sem greitt var á staðnum, var gefin út kvittun til
lénsmannsins fyrir reikningsfærslunni.36 Nákvæm endurskoðun á reikn-
ingunum hófst ekki fyrr en lénsmennirnir voru farnir úr rentukammerinu
til síns heima, þ.e. til síns herragarðs. Hver liður var yfirfarinn nákvæm-
lega og athugað að allt sem færa átti sem tekjur væri fært inn og ekki
annað fært út en leyfilegt var. Athugasemdir voru skrifaðar við liðina á
spássíu. Af athugasemdum má sjá hvernig endurskoðunin fór fram, þ.e.
reikningurinn var bæði borinn saman við reikninginn frá árinu áður og
athugað hvort færslur stemmdu við fylgiskjölin og að þau væru til staðar.
Algengar athugasemdir á spássíunni eru því „eins og á fyrra ári“ (d. „lige
saa forgangne Aar“) eða „ber saman við veitingabréfið“ (d. „kommer off-
urens med Forleningsbrevet“) og vísað er til fylgiskjalanna, t.d. Lit A „ber
saman við meðfylgjandi sakeyrisskrá undirritaðri“ (d. „kommer offurens37
med hosliggende sagefaldsregister signeret“). Fyrir kemur einnig að skrifaðar
eru skýringar við liðina eða athugasemdir.38 Athugasemdir og skýringar
frá reikningshaldara voru að lokum skrifaðar á sérstakan lista (d. antegnel-
ser), þar sem gert var ráð fyrir að lénsmaðurinn gæti svarað fyrir færslurnar
og gefið skýringar. Eftir að lénsmaðurinn hafði svarað athugasemdum,
sennilega er hann kom í rentukammerið að ári liðnu, var listinn sendur
rentumeistara eða hirðmeistara til úrskurðar. Ákvörðun þeirra gat léns-
maðurinn áfrýjað til konungs. Þegar endanleg niðurstaða var fengin við
LÉNSREIKNINGUR REIKNINGSÁRIÐ 1647–1648
35 Jens Engberg, Dansk Finanshistorie, bls. 98-99.
36 Orla K.O. Damkjer, Indføring i Lensregnskaberne, Forvaltning og ejendomsstruktur
i det syttende århundrede, Ritstjórar, Erik Helmer Pedersen og Michael Hertz,
Landbohistorisk Tidskrift. Bol og By. 2. række 4: 1982, bls. 9–30, hér bls. 27.
37 Offurens þýðir hér eitthvað á þá leið að þessu beri saman við veitingabréfið.
38 Jens Engberg, Dansk Finanshistorie, bls. 100–101; Orla K.O. Damkjer, Indføring i
Lensregnskaberne, bls. 27; Hans H. Fussing, Stiernholm Len 1603–1661, København:
Danske Videnskabernes Selskab/Munksgaard, 1951, bls. 142–154. Dæmin eru úr
íslensku lénsreikningunum og koma margoft fyrir. Sjá ÞÍ. Rtk. F/1–F/8. Léns-
reikningar 1588–1662.