Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Page 196
195
Inngangur að þýðingu
„Menningargagnrýni og samfélag“ er ein af þekktari ritgerðum þýska heim-
spekingsins og menningarrýnisins Theodors W. Adorno (1903–1969). Í grein-
inni, sem var skrifuð árið 1949 og gefin út tveimur árum síðar, tekst Adorno
á við þá spurningu hvort menningargagnrýni sé möguleg eftir hildarleik
útrýmingarbúðanna og heimsstyrjaldarinnar síðari og þannig fjallar textinn
öðrum þræði um ábyrgð og breytta stöðu menntamannsins.1 Þótt megininn-
takið í grein Adornos sé þannig staða menningargagnrýni hefur hún fyrst og
fremst orðið þekkt, ef ekki alræmd, vegna setningar sem höfundurinn dembir
fram í lok umfjöllunarinnar: „að skrifa ljóð eftir Auschwitz er villimennska“.
Setningin virðist koma eins og þruma úr heiðskíru lofti í grein sem hefur
ekki minnst einu orði á ljóð. Þær setningar eru þó vandfundnar sem jafn oft
hefur verið vísað til í umræðu um nútímaljóðið og hefur fullyrðingu Adornos
m.a. verið lýst sem einum „mikilvægasta átakafleti fagurfræðilegrar orðræðu á
eftir stríðsárunum“.2
Viðbrögð við yfirlýsingu Adornos létu ekki á sér standa. Í þekktri ritgerð
frá árinu 1959 brást þýski rithöfundurinn Hans Magnus Enzensberger m.a.
til varnar og hélt því fram að „ef við viljum lifa áfram verði að hrekja þessa
setningu“, sem feli í sér „einn harðasta dóminn sem hafi verið felldur yfir öld
1 Íslenska þýðingin sem hér birtist er gerð eftir útgáfu textans í heildarsafni verka
Adornos: Theodor W. Adorno, „Kulturkritik und Gesellschaft“, Theodor W.
Adorno, Gesammelte Schriften, bindi 10–1: Kulturkritik und Gesellschaft I. Prismen,
Ohne Leitbild, ritstj. Rolf Tiedemann, Frankfurt am Main: Suhrkamp, 1997, bls.
11–30.
2 Robert Weninger, Streitbare Literaten. Kontroversen und Eklats in der deutschen
Literatur von Adorno bis Walser, München: Beck, 2004, bls. 33.
Theodor W. adorno
Menningargagnrýni og samfélag
Ritið 1/2016, bls. 195–218