Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Síða 200
199
í ljóðum né í menningargagnrýni – og þar liggur tengingin á milli ljóðsins og
þeirrar menningargagnrýni sem Adorno tekur til greiningar í ritgerðinni.
Lykilatriðið í greiningu Adornos er að „menningargagnrýnin deilir blindu
viðfangsefnis síns“ og er þannig samsek menningunni sem hún fordæmir. Á
sama hátt felst hégómi menningargagnrýnandans í því að „um leið og hann
bendir ásakandi á menninguna, rígheldur hann fortakslaust og af kreddufestu
í hugmyndina um menningu“, hann lítur m.ö.o. á sig sem „handhafa þeirr-
ar menningar sem menninguna skorti“. Adorno beinir hér spjótum sínum
að hugmyndum eftirstríðsáranna um endurreisn menningarinnar, sem gjarn-
an fólu í sér fordæmingu ríkjandi menningar og tilheyrandi hugmyndir um
afturhvarf til gilda sem nútíminn var talinn hafa upprætt. Þannig verður sjálft
„menningarhugtakið“ að „æðsta blæti gagnrýninnar“ og ímynd „hins falska
undanhalds“, þegar hún þjónar sem rými hins ósnortna handan við menningu
samtímans. Adorno hafnar því að gagnrýnandinn geti tekið sér slíka „arkimed-
íska stöðu sem er hafin yfir menninguna og blindu samfélagsins“ og legg-
ur áherslu á díalektíska gagnrýni þar sem „sá sem gagnrýnir menninguna“ á
„hlutdeild í henni og þó ekki“, hann gengst við samsekt sinni en leitast um
leið við að varðveita og virkja möguleikann á gagnrýni. Að þessu leyti deilir
ljóðskáldið stöðu gagnrýnandans, það á engan annan kost en að gangast við
hlutdeild sinni í villimennskunni en reyna samt að halda áfram að yrkja. Svo
vitnað sé til orða Howards Caygill þá „ómar þjáningin í svívirtum miðli ljóðs-
ins“13 og einmitt þess vegna verður hljómur hins kyrrláta náttúruljóðs holur,
það er þrungið af þjáningunni sem það þegir yfir. Um leið er ákall Adornos
um nýja ljóðlist sem bregst við eigin villimennsku ákall eftir nýju ljóðmáli er
væri fært um að varðveita það neikvæði sem hann lýsir sem „lífhvata“ menn-
ingarinnar. Í fagurfræði Adornos býr vonin einmitt í neikvæðinu, í minning-
unni um sannferðuga reynslu sem virðist lokuð af í fortíðinni en er okkur
nauðsynleg sem ímynd annars konar samfélags og neikvæð spegilmynd þess
sem er. Heimsmyndin sem hér blasir við kann að virðast myrk en forsenda
vonarinnar er sú að við göngumst við samsekt okkar í hryllingnum.
Þetta ákall kann að vera brýnt á tímum þegar vísbendingar hrannast upp
um að samfélagið eins og við þekkjum það kunni brátt að heyra sögunni til. Í
slíku umhverfi hafa ljóðskáldin vissulega valkost: að hætta að yrkja og gangast
þannig villimennskunni á hönd, að halda áfram að yrkja eins og ekkert hafi í
skorist og láta villimennskuna bera ljóð sín ofurliði, að úthrópa villimennsk-
13 Howard Caygill, „Lyric Poetry before Auschwitz“, Adorno and Literature, ritstj.
David Cunningham og Nigel Mapp, London, New York: Continuum, 2006, bls.
69–83, hér bls. 82.
MENNINGARGAGNRÝNI OG SAMFÉLAG