Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Page 204
203
leifð hins óskipulega ástands aleindarinnar: ábyrgðarleysið. Að öðru leyti
bindur hann sig æ þéttar sem einfalt flúr við hinn efnislega grunn, sem
hann þykist á sama tíma hefja sig upp yfir. Vitaskuld ætti ekki að taka
ádeilu Karls Kraus á fjölmiðlafrelsið bókstaflega:16 með því að kalla í fullri
alvöru eftir ritskoðun á blaðasnápum væri farið úr öskunni í eldinn. Aftur
á móti eru forheimskunin og lygin sem dafna í skjóli fjölmiðlafrelsisins
ekki hending í sögulegri þróun andans, heldur smánarblettur þrælkunar-
innar sem frelsun andans, eða öllu heldur fölsk endurlausn hans, þrífst á.
Þetta er hvergi eins sláandi og þar sem andinn togar í hlekki sína: í gagn-
rýninni. Ástæða þess að þýsku fasistarnir útskúfuðu orðinu gagnrýni og
settu þess í stað hið smekklausa hugtak listskoðun [Kunstbetrachtung] var
tvímælalaust sú að þeir vildu styrkja skýlausa hagsmuni einræðisríkisins,
sem óttaðist að ástríða Posa markgreifa kynni að brjótast fram í ósvífni
dálkahöfundarins.17 En í fáfræði sinni galt sjálfumglöð menningarvilli-
mennskan sem kallaði eftir útþurrkun gagnrýninnar – komu villihjarð-
arinnar inn á afgirt svæði andans – líkt með líku. Dýrsleg bræði brún-
stakksins í garð nöldurseggsins sprettur ekki aðeins af öfund frammi fyrir
útilokandi menningu sem hann rís máttleysislega gegn og ekki heldur af
hreinni vanþóknun á þeim sem fær að segja það neikvæða sem aðrir menn
verða að bæla. Lykilatriðið er að valdsmannsleg framkoma gagnrýnandans
sviðsetur frelsi sem hann ekki hefur, hann gengur inn í foringjahlutverk
sem er ósamrýmanlegt hans eigin skilningi á frelsi andans. Fjandvinirnir
knýja hann til þess. Í sadisma sínum löðuðust þeir á afbrigðilegan hátt
að veikleika – dulbúnum á útsmoginn hátt sem styrkleika – þeirra sem
með einræðistilburðum sínum vildu leggja línurnar fyrir misvitra valdhafa
framtíðarinnar. Fasistarnir reyndust þó jafn bernskir og gagnrýnendurnir
og féllu fyrir trúnni á menninguna sem slíka, með þeim afleiðingum að
hún snerist aðeins um sýndarmennsku og samþykkta andans jöfra. Þeir
litu á sig sem lækna menningarinnar og drógu úr henni brodd gagnrýn-
innar. Þar með drógu þeir hana ekki aðeins meinfýsislega niður á svið hins
opinbera, þeir áttuðu sig ekki heldur á því hvernig gagnrýni og menning
16 [Rithöfundurinn og menningarrýnirinn Karl Kraus er einkum þekktur fyrir útgáfu
á tímaritinu Die Fackel, satírur sínar og beitta gagnrýni á blaðamennsku samtím-
ans.]
17 [Posa markgreifi er persóna í leikriti Friedrichs Schiller, Don Karlos, sem var frum-
sýnt árið 1787. Verkið fjallar um pólitísk og þjóðfélagsleg átök í tengslum við áttatíu
ára stríðið og markgreifinn stígur fram sem ötull talsmaður lýðræðislegra viðhorfa
nútímans, en bent hefur verið á að hann þjóni sem einskonar málpípa höfundar í
verkinu.]
MENNINGARGAGNRÝNI OG SAMFÉLAG